Dæmdur í fangelsi fyrir líkamsárás

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur mildaði í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni fyrir líkamsárás með því að hafa veitt öðrum manni hnefahögg í andlitið fyrir utan veitingastað við Laugaveg í Reykjavík í febrúar 2013 með þeim afleiðingum að sá hlaut fjölda brota í andlitsbeinum. Með brotinu rauf maðurinn skilorð vegna eldri dóms. Var hann dæmdur í 7 mánaða fangelsi í stað 9 mánaða í héraði. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambinu 800 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn sem sakfelldur var hélt því fram fyrir dómi að hann hefði starfað sem dyravörður á veitingastaðnum og haft afskipti af hinum manninum vegna þess að hann hefði verið með mikil læti. Maðurinn hefði meðal annars reynt að slá sig en hann róað hann niður með svokölluðu svæfingartaki og loks komið honum út af staðnum. Maðurinn hefði verið með meðvitund og meðal annars óskað eftir því að fá úlpuna sína sem hann hefði gleymt inni á staðnum.

Hinn sakfelldi þvertók fyrir að hafa barið manninn en hins vegar hafi hann verið tekinn í andlitinu og líklega orðið fyrir meiðslunum áður en til samskipta þeirra hafi komið. Borin voru undir hann ummæli, sem höfð voru eftir honum við skýrslutöku hjá lögreglu, um að hann gæti ekki útilokað að hafa barið manninn, og sagði hann þau röng og ekki eftir sér höfð. Hinn sakfelldi á að baki brotaferil frá árinu 1988 og hefur hlotið fimm refsidóma fyrir líkamsárásir segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert