Dómsmál munu fá vandaðri meðferð

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ný lög um millidómstig og meðferð einka- og sakamála munu leiða til þess að dómsmál munu framvegis fá vandaðri meðferð og réttaröryggi mun aukast. Þetta segir Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.

Frumvörpin tvö voru samþykkt á Alþingi í morgun.

Frétt mbl.is: Frumvarp um millidómstig samþykkt

„Við erum mjög ánægð með þetta. Það er líka ánægjulegt að sjá að það er breið samstaða allra stjórnmálaflokka um að stíga þessi skref til að bæta málsmeðferð og það ber að fagna því,“ segir Reimar.

Hann bætir við að innanríkisráðherra hafi sett frumvörpin í mjög farsælan farveg og að náið samráð hafi verið um samningu þeirra.

Frétt mbl.is: Felur í sér mikla réttarbót

Dómstigin í landinu verða þrjú, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga verður færð undir nýja, sjálfstæða stjórnsýslustofnun, dómstólasýsluna. Stjórnsýsla dómstólanna verður þar með efld og sjálfstæði þeirra styrkt.

Augliti til auglits

Millidómstiginu er ætlað að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa málsmeðferð. Spurður hvað felst í því segir Reimar að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi litið svo á að dómstóll geti aðeins endurmetið mat á sönnunargildi munnlegs framburðar ef vitni eða ákærði hafi mætt fyrir dóminn og gefið skýrslu augliti til auglitis við dómarann.

„Þessi regla hefur leitt til þess að Hæstiréttur, sem er ekki í aðstöðu til að framkvæma svona skýrslutökur, hefur oft þurft að ómerkja dóma. Það hefur leitt til þess að fólk þarf að þola endurtekna málsmeðferð og það er auðvitað óásættanlegt,“ útskýrir Reimar og segir regluna einnig hafa leitt til þess að ríkið hefur verið talið brotlegt við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. „Nú er verið að tryggja réttaröryggi við þessa meðferð.“

Hann tekur fram að dómskerfið hafi í öllum aðalatriðum verið traust en að tímabært hafi verið að gera bragarbót vegna kröfunnar um milliliðalausa málsmeðferð með samþykkt frumvarpanna í morgun.

Hæstiréttur Íslands fær meiri tíma til að sinna fordæmisgefandi hlutverki …
Hæstiréttur Íslands fær meiri tíma til að sinna fordæmisgefandi hlutverki sínu. mbl.is/Brynjar Gauti

Á sér langan aðdraganda

Að sögn Reimars hafa þessar breytingar verið ræddar af töluverðri alvöru síðustu árin en hugmyndir um millidómstig eigi sér mun lengri aðdraganda.

„Það voru þrjú dómstig 1920 og þeim var síðan fækkað í tvö þegar Ísland varð fullvalda ríki. Það komu upp hugmyndir undir lok áttunda áratugarins um að taka upp millidómstig en síðan var ákveðið að minnka álagið á dómskerfið með öðrum aðferðum, m.a. að fjölga dómurum í Hæstarétti,“ segir hann. „Það er hins vegar ekki fyrr en á síðustu árum sem áherslan í umræðunni hefur verið á milliliðalausa málsmeðferð.“

Nýju lögin verða einnig til þess Hæstiréttur fær núna meiri tíma til að sinna fordæmisgefandi hlutverki sínu og mun eðli starfa dómara því breytast, að sögn Reimars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert