Tvær konur voru handteknar í Kötlu, flugvél Icelandair, á Keflavíkurflugvelli eftir að þær reyndu að stöðva brottvísun hælisleitanda sem er um borð. Blaðamaður mbl.is sem er um borð í vélinni segir að konurnar hafi reynt að fá farþega til að standa upp til að koma í veg fyrir brottför. Vélin á að fljúga til Stokkhólms.
Blaðamaður mbl.is segir að farþegum sé nokkuð brugðið yfir uppákomunni. Flugstjóri vélarinnar hafi sagt lögreglumönnum að hann myndi ekki leggja af stað fyrr en öruggt væri að fleiri mótmælendur væru ekki í vélinni. Flugfreyjur hafi svo gengið um og spurt farþega hvort þeir væru sáttir við að vélin legði af stað. Mótmæli hafi verið fyrir utan flugstöðina í morgun vegna málefna hælisleitenda.
Samkvæmt lýsingu blaðamanns öskruðu konurnar yfir farþegarýmið og kröfðust þess að aðrir farþegar tækju þátt í að stöðva för vélarinnar. Lögreglumenn hafi haldið annarri konunni niðri í gólfinu. Þær hafi svo báðar verið handjárnaðar efst í landgöngustiganum.
Lögreglumenn fóru svo yfir farþegalista vegna gruns um að fleiri mótmælendur væru í vélinni sem ætluðu að hefja mótmæli að nýju þegar vélin væri komin í loftið.
Vélin er nú á leið í loftið með hælisleitandann um borð. Hann sat aftast í vélinni og hafði sig ekki í frammi á meðan uppákoman stóð yfir, að sögn blaðamanns mbl.is.
Hópur sem nefnir sig Ekki fleiri brottvísanir birti myndskeið á Facebook-síðu sinni sem virðist tekið af annarri konunni sem var handtekin.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is verða konurnar tvær yfirheyrðar síðar í dag.