Bráðnun Grænlandsjökuls og norðurskautsíssins vegna hnattrænnar hlýnunar getur haft tvíþætt og mikil áhrif hér á landi á komandi árum og áratugum. Þar leika stærsta hlutverkið breytingar á hæð sjávar vegna þess ferskvatns sem er að myndast, en ekki síður áhrif þessa sama ferskvatns á sjávarstrauma í kringum landið. Þegar er farið að hægjast á Golfstraumnum og breytingarnar á honum og jafnvel stöðnun geta orðið mjög snöggt. Þetta segja þeir Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf, tveir af þekktustu loftslagsfræðingum samtímans, en þeir eru nú staddir hér á landi í tilefni af fyrirlestrum sem þeir flytja í Háskóla Íslands á vegum Earth 101 verkefnisins sem Guðni Elísson stýrir.
Mann er hvað þekktastur fyrir svokallað „íshokkíkylfugraf“ sem hann kynnti í lok tíunda áratugarins, en þar tók hann saman gögn um hitastig og áætlað hitastig út frá rannsóknum á jörðinni fyrir síðustu 2.000 ár. Þar kom í ljós að hitastigið hefði farið hægt lækkandi yfir tímabilið, þangað til á tuttugustu öldinni og að það myndi fara hratt hækkandi. Kallaði grafið á sínum tíma fram mikla gagnrýni frá þeim sem afneita hnattrænni hlýnun en vísindagögn hafa síðan alltaf rennt traustari stoðum undir niðurstöður Manns.
Rahmstorf er einn helsti sérfræðingur heims í breytingum á yfirborði sjávar og hefur lengi spáð því að líkön IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum, og annarra fræðimanna vanreikni mögulega hækkun sjávar. Þannig sagði líkan sem hann kynnti til um að í verstu tilfellum gæti meðalhækkun sjávar verið allt að 1,4 metrar en áætlanir IPCC voru nær hálfum metra. Síðan þá hefur IPCC hækkað sína áætlun upp í 1 metra. Þá hefur Rahmstorf einnig rannsakað aukningu tilfella aftakaveðurs í heiminum sem og breytingar á Golfstraumnum, ásamt Mann.
Í samtali við mbl.is segir Mann að undanfarin ár hafi heimurinn séð stanslaus hitamet falla. Fyrst var 2014 heitasta ár frá því að mælingar hófust. Svo var það árið 2015 og nú stefnir í að árið 2016 verði það heitasta. Undantekningin frá þessu er þó Ísland. Fyrir sunnan landið er svokallað blátt gat, eða eins og Mann og Rahmstorf nefna það „blue blob“ eða „blue hole.“
Þeir telja að skýringar á því sé að finna í því að hægt hafi á Golfstraumnum. Það gerist þegar hlýnun jarðar orsakar aukna bráðnun íshellunnar á Grænlandsjökli og á norðurskautinu. Við það kemur mikið ferskvatn í hafið og vegna minni þyngdar sinnar veldur það því að náttúrulegt ferli Golfstraumsins, þegar heitt vatn kemur frá suðlægari slóðum og sekkur svo þegar það kemur norðar, brenglast.
„Loftslagsmódelin gera ráð fyrir að þetta geti gerst mjög snöggt,“ segir Mann um breytingarnar og tekur fram að snöggt þýði í þessum fræðum á bilinu áratugur og upp í öld. Bent hefur verið á að undanfarna áratugi hafi Golfstraumurinn bæði hægt á sér og hraðað sér. Þrátt fyrir það segir Mann að langtíma-breytingin liggi niður á við og að svona flökt undanfarna áratugi geti þýtt að kerfið sé á barmi þess að hrynja. Hann segir allar tölur allavega sýna mikið ójafnvægi í þessum málum og að breytingarnar séu „á undan áætlun“. Á Íslandi gæti aftur á móti, vegna þessara áhrifa af Golfstraumnum, komið tímabil kulnunar við landið áður en hlýnunar fer að gæta vegna heildaráhrifa hnattrænnar hlýnunar í heiminum, segir Mann.
Ísland er í næsta nágrenni við eitt stærsta forðabúr ferskvatns í heiminum, ísbreiðuna á Grænlandi. Rahmstorf segir að þrátt fyrir nálægðina sé óvíst hvaða áhrif hækkandi yfirborð sjávar muni hafa hér. Þannig sé mikil óvissa með áhrif ísbreiðunnar ef hún heldur áfram að bráðna. Þar sé um gríðarlegan massa að ræða sem dragi til sín mikið magn sjávar. Með bráðnun ísbreiðunnar léttist svæðið og geti valdið því að yfirborð sjávar lækki á móti þeirri hækkun sem aukið vatn valdi.
Hann tekur þó fram að í þessu séu talsverðir óvissuþættir. „Ísland býr við mikla óvissu,“ segir hann og bætir við: „Óvissan um framhaldið stafar af þekkingarleysi á því hvernig áhrif af íshellunni á Grænlandi eru.“ Hann segir þó að að öllum líkindum muni yfirborð sjávar hækka hér við land, þó það verði undir meðaltali heimsins.
Rahmstorf segir þessa þróun í raun óumflýjanlega. Það sé ljóst að yfirborð sjávar samhliða hækkandi hitastigi muni halda áfram að hækka þangað til við stoppum brennslu á jarðefnaeldsneyti svo gott sem að fullu. Nú sé aftur á móti horft til þess að reyna að stoppa hlýnun jarðar við 2°C yfir langtímameðalhita jarðarinnar, en hann er í dag um 1°C yfir meðaltalinu.
Spurður um helstu áhrif hnattrænnar hlýnunar og breytingar sjávarstrauma hér við land segir Rahmstorf að hér á landi muni væntanlega áhrifin á fiskistofnana verða hvað áþreifanlegust. Þannig segi fiskifræðingar sem rannsaki norðanvert Atlantshafið að hreyfing sé komin á þorskinn.
Aftakaveður eða miklar sveiflur í veðurfari munu einnig aukast að sögn Rahmstorfs, þó hann taki fram að hann hafi ekki nákvæm gögn um slíkt fyrir Ísland. Hann bendir aftur á móti á að með hlýnun jarðar fylgi fleiri og stærri sveiflur í veðurfari eins og hitabylgjan sem gengur yfir Indland og skógareldar í Kanada vegna þurrka og verði algengari með hverju árinu.
Slík veðurfyrirbæri hafa þó ekki bara áhrif á ákveðin svæði því Rahmstorf bendir á að öfgaveðurfar í Sýrlandi árin fyrir 2011 hafi orsakað mestu þurrka þar í landi í yfir 900 ár. Mjög áreiðanleg gögn sýni fram á að sú þróun sem þar varð stafi af hnattrænni hlýnun af mannavöldum og reyndar eigi það við um allt Miðjarðarhafssvæðið líka. Þegar svona öfgaveðurfar geisi valdi það því að fólk missi lífsviðurværi sitt og það komi því til að flytja sig til og breyti íbúaþróun landa og heimsálfna. „Meiri hlýnun þýðir fleiri öfgatilfelli í veðurfari og við munum sjá meira af slíku,“ segir hann.