Selja íbúðina ef hundurinn fær ekki að vera

Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars.
Tinni er lítill og kátur boston terrier-hundur að sögn Hilmars. ljósmynd/Hilmar Birgir Ólafsson

„Ef það verður kosið gegn þessu þá þurfum við að selja íbúðina svo við erum að reyna að gera allt sem við getum gert,“ segir Hilmar Birgir Ólafsson, hundaeigandi og íbúi í Stakkholti 2–4, en á húsfundi 1. júní nk. verður kosið um það hvort Hilmar og tveir aðrir aðilar í húsinu fái leyfi fyrir hundum sínum.

Hilmar setti í loftið heimasíðuna Stakkholtshundar.com, til að vekja athygli á málinu, en hann segir að nokkrir nágrannar hans hafi ákveðið að berjast með kjafti og klóm fyrir því að bera hann og fjölskyldu hans út vegna hundsins Tinna.

Auk Hilmars og kærustu hans eru tvö önnur pör í sama stigagangi með hunda, en að sögn Hilmars hafa þau öll lagt sig fram við það að sem minnst truflun sé af hundum þeirra. Enginn óþrifnaður hafi verið af þeim, lítið hafi heyrst í þeim auk þess sem þeir komi sáralítið inn í sameign hússins.

Hilmar og Herdís, kærasta hans, búa í Stakkholti með hundinn …
Hilmar og Herdís, kærasta hans, búa í Stakkholti með hundinn Tinna. Fái þau ekki leyfi til að vera með hundinn í húsinu neyðast þau til að selja íbúðina. ljósmynd/Hilmar Birgir Ólafsson

Nágrannar hringdu í Heilbrigðiseftirlitið

„Íbúðin okkar er á jarðhæð og með sérinngangi í gegnum svalir svo hundurinn fer alltaf inn og út þar. Hann fer aldrei inn í sameign og það er mjög lítil truflun af honum en fólk virðist samt setja sig upp á móti þessu,“ segir hann, og bætir við að einhver nágranna hans hafi hringt í Heilbrigðiseftirlitið með það að markmiði að fá Tinna og hina hundana tvo út úr húsinu.

Eina leiðin til að útkljá málið er í gegnum húsfund sem fer fram á miðvikudag í næstu viku, en helmingur íbúðaeigenda í húsinu þarf að mæta á fundinn og þar af þarf hundahaldið að vera samþykkt með tveimur þriðju hlutum atkvæða. Alls eru um hundrað íbúðir í húsinu og þurfa því eigendur um 50 íbúða að mæta á fundinn. Hilmar segir hins vegar að fáir aðilar eigi margar íbúðir í húsinu og geti því haft mikil völd í slíkri kosningu.

„Þetta er sérstaklega erfitt í okkar húsi því nánast helmingurinn af íbúðunum eru Airbnb-íbúðir og þeir íbúðaeigendur hafa sumir fimm sinnum eða tíu sinnum fleiri atkvæði en ég því þeir eiga svo margar íbúðir,“ útskýrir Hilmar. „Það var einu sinni kosið um annan hund og þá náði einn aðili að fella þann hund því hann var með svo mörg atkvæði.“

Aría býr einnig í húsinu ásamt eigendum sínum, Hildi og …
Aría býr einnig í húsinu ásamt eigendum sínum, Hildi og Grími. ljósmynd/Hildur Erla

„Hann er partur af fjölskyldunni“

Hilmar og hinir hundaeigendurnir vinna því nú að því að fá umboð hjá þeim íbúðaeigendum sem annars myndu ekki mæta á fundinn, til að kjósa um þetta einstaka mál. „Við erum að reyna að fá fólk með okkur í lið svo við neyðumst ekki til að selja íbúðina,“ segir Hilmar og bætir við að ekki komi til greina að láta hundinn fara. „Það kemur ekki til greina. Hann er partur af fjölskyldunni.“

Hilmar segir að nú þegar hafi hann fengið mjög misjafnar undirtektir. Fjöldi fólks hafi verið ósátt eftir að heimasíðan var sett í loftið og hafi skrifað „þvílíka pistla um að þetta sé alveg hræðilegt mál,“ en aðrir hafi verið jákvæðir og sagst ekki skilja hvers vegna fólk væri svona mikið á móti þessu.

Þá hafa hundaeigendurnir boðað til hundahittings á laugardaginn nk. og hvetja þeir íbúa í húsinu til að koma og kynnast hundunum. Þá sé öllum velkomið að hringja bjöllunni hjá þeim og kíkja í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert