Þrjátíu þúsund fylgdust með bílslysum snappara

Tuttugu og eitt þúsund fylgdust með Snorra Björns í gegnum …
Tuttugu og eitt þúsund fylgdust með Snorra Björns í gegnum miðilinn. Skjáskot

Hátt í 30 þúsund fylgdust með því í gegnum Snapchat þegar þekkt íslensk ungmenni lentu í bílslysi. Þar af horfðu 21 þúsund á ljósmyndarann Snorra Björnsson í gegnum samfélagsmiðilinn. Ekki var þó um alvörubílslys að ræða, heldur átaksverkefnið Höldum Fókus II sem sett var í loftið á miðvikudag af Samgöngustofu í samstarfi við Símann og framleiðslufyrirtækið Tjarnargötuna. Að þessu sinni er átakinu beint gegn þeirri iðju einstaka ökumanna, sérstaklega ungra, að taka upp og skoða „Snapchat“ meðan á akstri stendur.

„Til eru ótalmörg dæmi um þessa áhættuhegðun og því ákváðum við að fá til liðs við okkur fjóra mjög vinsæla íslenska „snappara“ sem sumir hverjir hafa sjálfir gerst sekir um þetta en voru nú tilbúnir að leggja okkur lið til að uppræta þetta,“ segir í tilkynningu frá Samgöngustofu.

Voru þau Emmsjé Gauti, Snorri Björnsson, Margrét Erla Maack og Berglind Festival sem tóku þátt í verkefninu og er óhætt að segja að skilaboðin hafi komist vel til skila. Sem dæmi má nefna að Snorri fékk áhorf upp á rúmlega 21.000 á hvert myndbrot en á bak við þann fjölda er eitt áhorf, einn sími og að minnsta kosti einn einstaklingur. Þessu til viðbótar horfðu 9.000 á Gauta, 2.000 á Berglindi og 1.000 á Margréti en í einhverjum tilfellum getur sami einstaklingur verið að skoða fleiri en einn Snapchat-miðlara.

„Við metum það sem svo að þetta séu á bilinu 26 – 30.000 stakir notendur sem horfðu í það heila. Á meðan á þessu stóð, þ.e. síðastliðinn miðvikudag, fjölgaði fylgjendum hjá Gauta um rúmlega 1.000 og hjá Snorra um 2.000.  Þetta er langhæsta áhorf sem þeir hafa náð í snapp-sögu sinni, og eftir því sem við best vitum eru þetta langhæstu tölur sem náðst hafa af stökum snöppurum,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu telja 99% ungra íslenskra ökumanna það að skrifa skilaboð á síma meðan á akstri stendur hættulegt. Þrátt fyrir það segjast 55% ungra ökumanna (18 – 34 ára) nota símann til annars en að tala í hann á meðan á akstri stendur. Rúm 60% þeirra telja þetta vera stórhættulegt. 

Hér fyrir neðan má sjá myndskeiðið frá Snorra Björns, en hin myndskeiðin er að finna á YouTube-síðu Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert