Yfirvinnubann og veikindi flugumferðarstjóra hafa haft áhrif á 3.000 ferðir flugvéla á milli Evrópu og Ameríku. Samkvæmt útreikningum Isavia hefur þetta valdið alþjóðlegu flugfélögunum aukakostnaði vegna meiri brennslu eldsneytis sem nemur eitthvað á annan milljarð króna.
Kostnaðurinn stafar af því að vélarnar þurfa að fara óhagkvæmari flugleiðir, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. Þegar flugumferðarstjóri í flugstjórnarmiðstöðinni veikist þarf að draga úr umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið. Vélum sem ætla að fara syðst um svæðið er beint suður fyrir, inn í það skoska.
Aðgerðirnar bitna ekki mikið fjárhagslega á Isavia. „Isavia verður fyrir álitshnekki hjá alþjóðlegu flugfélögunum. Þau fá verri þjónustu,“ segir Guðni. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir hann á að íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til að veita örugga, hagkvæma og óslitna þjónustu. Öryggi sé tryggt en hagkvæmni minnki.