Dúxinn er þrítug móðir

Anna Krist­ín Ólafs­dótt­ir dúxaði.
Anna Krist­ín Ólafs­dótt­ir dúxaði. Ljós­mynd/ Tækni­skól­inn

„Ég bjóst nú ekki við þessu og var í hálf­gerðu losti þarna í gær,“ seg­ir Anna Krist­ín Ólafs­dótt­ir sem í gær dúxaði við Tækni­skól­ann, en hún út­skrifaðist með ein­kunn­ina 9,85. Anna Krist­ín er þrítug móðir, og lærði graf­íska miðlun við skól­ann.

Fór óhefðbundna leið í námi

Í sam­tali við mbl.is seg­ist Anna Krist­ín hafa farið óhefðbundna leið í námi, en hún út­skrifaðist sem stúd­ent frá Fjöl­brauta­skóla Vest­ur­lands fyr­ir tíu árum. Eft­ir það lærði hún þjóðfræði við Há­skóla Íslands og lauk síðar meist­ara­námi í hag­nýtri menn­ing­armiðlun. „Þar fékk ég að þreifa á þess­um for­rit­um og þá kviknaði áhug­inn,“ seg­ir hún og bæt­ir við að í kjöl­farið hafi hún tekið ákvörðun um að skrá sig í Tækni­skól­ann.

Hún hóf nám þar haustið 2013, þegar hún var ólétt, en dótt­ir henn­ar kom í heim­inn í fe­brú­ar 2014. Hafði hún því verið í fjar­námi á meðan hún var í fæðing­ar­or­lofi, en í haust hóf hún staðnám við skól­ann. Þar sem hún býr á Akra­nesi keyrði hún á milli alla daga, og þurfti að skipu­leggja sig gríðarlega vel.

„Þetta er bú­inn að vera strang­ur vet­ur. Ég þurfti að skipu­leggja mig vel því ég gat ekki verið fram á kvöld í skól­an­um,“ seg­ir hún. Lyk­ill­inn að ár­angr­in­um seg­ir hún þó að sé áhug­inn. „Ég hafði svo rosa­lega gam­an af nám­inu í Tækni­skól­an­um og ég held að þess vegna hafi mér gengið svona vel. Mér fannst þetta svo skemmti­legt,“ seg­ir hún.

„Held að eng­inn hafi bú­ist við þessu“

Anna Krist­ín seg­ist ekki hafa haft hug­mynd um meðal­ein­kunn sína, þar sem hún hafi ekki verið búin að reikna hana út. Það hafi því komið henni í opna skjöldu þegar hún komst að því að hún væri dúx skól­ans, á at­höfn­inni í gær.

„Ég var búin að banna öll­um í fjöl­skyld­unni minni að koma því ég er búin að út­skrif­ast svo oft og vildi ekki að þau þyrftu að sitja í gegn­um enn aðra at­höfn­ina,“ seg­ir hún um viðbrögð fjöl­skyld­unn­ar. „Þau vissu að mér hefði gengið vel og að ég hefði fengið góðar ein­kunn­ir, en ég held að eng­inn hafi bú­ist við þessu“.

Anna Krist­ín stefn­ir að því að klára samn­ing­inn í graf­ískri miðlun. Kom­ist hún á samn­ing í haust get­ur hún fengið sveins­próf næsta vor. Draum­inn seg­ir hún þó vera að sam­tvinna graf­ísku miðlun­ina við fyrra nám sitt.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert