Í þyrlu á meðan aðrir greiði bílalán

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Þarna eru ein­stak­ling­ar sem við vit­um að brutu gegn sam­fé­lag­inu og hef­ur verið refsað. Þeir hafa fengið mikl­ar af­skrift­ir og eru með eign­ir í skatta­skjól­um, en eru svo að dingla sér í þyrlunni sinni á meðan við hin erum með bíl­ana okk­ar á bíla­lán­um,“ sagði Katrín Júlí­us­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í þætt­in­um Viku­lok­in á Rás 1.

Katrín sagði umræðu síðustu daga eft­ir slys þyrlu í eigu Ólafs Ólafs­son­ar sýna að þjóðin er enn í sár­um eft­ir banka­hrunið 2008. „Við erum ekki búin að gera þetta hrun nægi­lega upp og það er mjög stutt í reiðina,“ sagði hún.

Katrín ræddi frétt­ir vik­unn­ar í þætt­in­um ásamt Drífu Snæ­dal, fram­kvæmda­stjóra Starfs­greina­sam­bands­ins, og Will­um Þór Þórs­syni, þing­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins. Þyrlu­slysið bar þar m.a. á góma og breyt­ing­ar á lög­um um fulln­ustu refs­inga.

Fólk verði ekki að betri mann­eskj­um eft­ir fang­elsis­vist

Drífa sagði að sín afstaða væri sú að forðast ætti að stinga fólki inn í fang­elsi eins og unnt væri þar sem fang­elsis­vist gerði fólk ekki að betri mann­eskj­um. Sam­fé­lagsþjón­usta væri fýsi­legri kost­ur. „En ef breyt­ing­ar á lög­um hafa verið sér­sniðnar að ákveðnum ein­stak­ling­um þá er það ekki í lagi,“ sagði hún.

Will­um Þór var fljót­ur að bregðast við og sagði að laga­breyt­ing­arn­ar hafi síður en svo verið sniðnar að ákveðnum ein­stak­ling­um. Um al­menn­ar aðgerðir hafi verið að ræða, sem sátt hafi verið um í þing­inu. „Það er sorg­legt ef umræðan er kom­in þangað,“ sagði hann.

Katrín tók und­ir með Drífu um að hún teldi fólk ekki verða að betri mann­eskj­um eft­ir fang­elsis­vist. Þá væri gríðarlegt álag á ís­lensk­um fang­els­um og fólk þyrfti að bíða lengi eft­ir að kom­ast inn. „Á meðan erum við að brjóta þetta fólk niður,“ sagði hún og benti á að breyt­ing­in á lög­un­um væri ein leið til að losna við þessa löngu biðlista. „Auðvitað var það ekki þannig að þetta væri sér­sniðið að þess­um aðilum, en ég skil reiðina.“

Af­leiðing­ar hruns­ins sitja enn í fólki

Þá sagði Katrín að Sam­fylk­ing­in væri dæmi um flokk sem nái ekki að líta nægi­lega vel til framtíðar og þung mál eins og banka­hrunið og af­leiðing­ar þess sætu enn í fólki. Sagði hún að það gæti tekið tvær kosn­ing­ar til viðbót­ar fyr­ir flokk­inn að jafna sig. Þá talaði hún fyr­ir því að all­ir ferl­ar yrðu gerðir gagn­særri, svo ekki væri hætta á því að ákveðinn hóp­ur fengi sérmeðferð.

Will­um sagði að mik­il­vægt væri að átta sig á því að um ferli væri að ræða. „Til að breyta hefðum get­um við sett regl­ur en það sem er jafn­mik­il­vægt ger­ist sam­hliða og það er viðhorfs­breyt­ing sem er gild­is­læg,“ sagði hann.

Krafa mót­mæl­enda ekki að Sig­mund­ur Davíð færi í mánaðarfrí

Þá var staða þing­flokk­anna m.a. rædd og kom­andi kosn­ing­ar í haust. Sagði Drífa að hún hefði tölu­verðar áhyggj­ur af því að verið væri að draga í land með kosn­ing­arn­ar. „Krafa mót­mæl­enda við Aust­ur­völl var ekki sú að Sig­mund­ur Davíð færi í mánaðarfrí. Kraf­an var skýr um það að stokka upp og fara í það upp­gjör sem hef­ur leitt okk­ur til þess að í um­gjörðinni er hneigð til að setja pen­inga hærra en fólk.“

Will­um Þór sagði það per­sónu­lega skoðun sína að ekki ætti að kjósa í haust, en að hann ætti samt von á því að það yrði gert. Þá sagðist Katrín hafa ef­ast um það um tíma að kosn­ing­arn­ar færu fram í haust og að tími væri kom­inn til þess að stjórn­ar­flokk­arn­ir gæfu upp dag­setn­ingu á kosn­ing­um. „Ég er far­in að hall­ast að því að ef þessi dag­setn­ing fer ekki að koma þá þurfi að grípa til gömlu skot­grafaraðgerðanna,“ sagði hún.

Skoða þyrfti LÍN-frum­varpið mjög vel

LÍN-frum­varpið var einnig rætt og voru Drífa og Katrín sam­mála um það að í frétta­til­kynn­ingu frá mennta­málaráðuneyt­inu hefði frum­varpið verið látið líta bet­ur út en raun bæri vitni. „Þetta var syk­ur­húðaðasta frétta­til­kynn­ing sem ég hef séð. Það hljómaði allt voða vel og fyr­ir­sagn­irn­ar voru flott­ar en svo þegar maður fór að lesa það sem stóð und­ir fyr­ir­sögn­un­um sá maður t.d. að verið er að hækka vext­ina,“ sagði hún.

Voru viðmæl­end­urn­ir all­ir sam­mála um að skoða þyrfti frum­varpið vel, en Drífa sagði að með því væri síður tekið til­lit til stöðu hvers og eins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka