Vinstrimaður með hægri-sýn?

Andri Snær Magnason skrifaði einu sinni sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð og nú vill hann leiða hana. Þjóðina, það er.

Andri bjó ungur í Bandaríkjunum og segist hafa lært að sjá Ísland með öðrum augum og eins lært að kunna að meta allt það skrítna við Ísland. Það sem margir hafi séð sem ókosti hafi hann lært að meta sem kosti.

„Já ég myndi segja að ég sé mikill Íslendingur en ég er samt ekkert mikið fyrir það að skilgreina þjóðerni eða annað. Ég er líka mikill jarðarbúi og skilgreini mig kannski frekar þannig.“

Nafn Andra er samofið íslenskri náttúruverndarumræðu enda hefur hann lengi verið talsmaður verndunar hálendisins. Ást sína á hálendinu segir hann komna frá því að „hökta aftan í Laplander-jeppa“ og ferðast á draumkennda ævintýralega staði. Hann hafði talið að þessi svæði væru þjóðgarðar og segir hann það hafa komið sér á óvart þegar hann komst að því að þau væru eyrnarmerkt sem iðnaðarsvæði. 

„Ég tel að náttúruvernd sé hvorki hægri né vinstri,“ segir Andri, spurður um fylgi sitt sem hann sækir einkum til ungs fólks og á vinstri væng stjórnmálanna.

„Þegar ég fór inn í náttúruverndarbaráttuna var stærsta ríkisframkvæmd Íslandssögunnar í gangi. Risavaxin ríkisframkvæmd. Og ég fór gegn henni með minni bók sem var í rauninni „manifesto“ um hugmyndir, um hvernig fyrirtæki við gætum stofnað, hvaða hugmyndir við gætum fengið og hvað gæti vaxið frá sprotafyrirtæki og orðið að stórfyrirtæki. Þannig að ég fór í raun fram með mjög hægrisinnaða sýn, gegn stærstu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar.“

Andri segir það þannig kaldhæðnislegt að hann sé stimplaður vinstrimaður en ítrekar þó að hann sé hlynntur jöfnuði og jöfnum tækifærum enda sé hann þeirrar skoðunar að allir þurfi á einhverjum tímapunkti að þiggja og gefa. 

„Það gerist náttúrulega þegar þú stuðar valdamikið fólk að það svarar á ákveðinn hátt. Það er kannski búinn til einhver hattur sem maður þarf að taka af sér.“

Biður fólk um að heilsa sér

Andri segir það hafa verið sérstaka tilfinningu að sleppa fréttinni af forsetaframboði sínu út til almennings. Hann gangi út á ákveðið bersvæði þar sem hann biður fólk um að vega og meta kosti sína og galla. Þá viðkvæmni upplifi hann á margan hátt í gegnum bókaútgáfuna en það sé annað að leggja sína persónu í hendur almennings.

„Þegar þú ferð í framboð þá ertu í rauninni að biðja alla um að heilsa þér. Meira að segja úti á götu, þá er fólk farið að heilsa mér, vegna þess að ég er búinn að biðja um það.“

Andri segist þannig lenda á spjalli um daginn og veginn við annars ókunnugt fólk en að honum líki það ekki illa.

„Það er í rauninni miklu ánægjulegra en ég bjóst við af því að það er grunnfeimni í manni, og er í öllum, en þetta hefur leitt af sér mörg óvænt samskipti og tengsl sem hefðu aldrei orðið til.“

Andri segir forsetaembættið snúast um að horfa fram í tímann, draga saman ólíkar upplýsingar og búa til úr þeim einhvers konar heildarmynd. Á sama hátt snúist starf rithöfundar um hugmyndasköpun.

„Ég sé líka forsetann sem texta að miklu leyti. Forsetinn er áramótaávarpið og þau skilaboð sem hann sendir út í samfélagið og það er eitthvað sem mér finnst mjög áhugavert. Þetta er líka kannski eins og bragarháttur eða stíll, þú nefnir kannski ekki persónur eða fyrirtæki eins og ef maður er að taka þátt í samfélagsumræðunni almennt en þetta er kannski á hærra plani. Maður horfir lengra fram og hugsar kannski breiðar. Og mér finnst það mjög áhugaverð áskorun sem rithöfundur að skrifa út þessar hugmyndir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert