20 stiga hiti í kortunum

Hlýnandi veður er fram undan á landinu og er útlit fyrir að hiti nái 20 stigum í flestum landshlutum í síðari hluta vikunnar samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Hitinn í dag verður á bilinu 7 til 14 stig en allt að 17 stig norðaustan til.

Gert er ráð fyrir nokkuð hægri suðaustlægri eða breytilegri átt á landinu í dag en smá blástur verður á Snæfellsnesi, eða 8–13 metrar á sekúndu, fram að hádegi. Vestanlands má reikna með rigningu á köflum í dag en sunnanlands stefnir í skýjað og úrkomulítið veður. Líkur eru á að það létti í uppsveitum yfir hádaginn. Fyrir norðan og austan verður hægur vindur og nokkuð bjart veður í dag þó að þokubakkar gætu látið á sér kræla við ströndina.

„Leifar af skilunum villast inn á norðanvert landið í nótt og fyrramálið, það þykknar upp og jafnvel líkur á dálítilli vætu. Á morgun léttir hins vegar heldur til um landið vestanvert og eru góðar líkur á að sjáist til sólar í hægum vindi, t.d. í höfuðborginni. Annars staðar verður skýjað með köflum og víða líkur á síðdegisskúrum. Það mun þó líklega enginn stikna úr hita þar sem hiti verður víða 8 til 13 stig. Það fer þó hægt hlýnandi og er útlit fyrir að hiti nái 20 stigum í flestum landshlutum seinni hluta vikunnar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert