Vegagerðin hefur útbúið áætlanir um uppsetningu salerna við áningarstaði sína meðfram þjóðvegum landsins. Þetta segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í samtali við mbl.is en að hans sögn er farið að gæta mjög slæmrar umgengni á mörgum áningarstaðanna.
„Fólk gerir þarfir sínar úti í kanti eða í kringum þessa staði,“ segir Hreinn og bætir við að sums staðar sé svo illa komið að líklega þurfi að taka aðstöðuna niður.
„Landeigendur og aðrir segja að þetta gangi ekki lengur, þessi sóðaskapur.“
Varð þetta til þess að Vegagerðin hóf að skoða hvort hægt væri að bregðast við, þó ekki væri nema bara til bráðabirgða. „Við vorum að hugsa um salerni líkt og notuð eru á útihátíðum og öðru slíku á meðan verið væri að koma upp varanlegri aðstöðu.“
Áætlanir Vegagerðarinnar gera ráð fyrir uppsetningu salerna á um 50–60 áningarstöðum yfir tveggja ára tímabil. Þá er gert ráð fyrir að fyrri hluti framkvæmdanna, þ.e. uppsetning um 25–30 salerna og rekstur þeirra í eitt sumar, muni kosta um 80 milljónir króna.
Áætlanirnar voru kynntar fyrir stjórnstöð ferðamála og fleiri aðilum í ferðaþjónustu fyrr í mánuðinum. „Ekkert framhald hefur þó orðið á því og við höfum enda hvorki skyldur né heimildir til að reka salernisaðstöðu. Vegagerðin á ekki að sjá um salernismál þjóðarinnar og ekki ferðamanna heldur,“ segir Hreinn og bætir við að Vegagerðin hafi heldur ekki fjármagn til aðgerðanna.
„Við notum það frekar til að fylla í holur á vegunum. Við lýstum þó vilja okkar til að koma að framkvæmdinni ef menn teldu að gagn væri af því.“ Aðspurður hver myndi sjá um rekstur þessara bráðabirgðasalerna segir Hreinn að Vegagerðin hafi gert ráð fyrir einkaaðilum.
„Við vorum með það í huga að gera samninga við gámafyrirtæki um allt land, sem eru hvort eð er að losa sorpgáma og þekkja þetta allt saman. Þar sem tveir eða fleiri aðilar væru fyrir, þá kæmi til útboðs.“
Ekki er enn víst hvort til framkvæmdanna komi, eins og áður sagði.
„Við eigum þessar áætlanir og getum dregið þær fram ef einhver vill fara í þetta verkefni.“