Alvarlegt mótorhjólaslys varð á Þingvallavegi við Leirvogsá á Mosfellsheiði nú síðdegis og er vegurinn nú lokaður.
Maðurinn var einn á ferð og virðist hafa misst vald á hjólinu og lent utan í vegriði að sögn lögreglu. Búið er að flytja hann á Landspítala og ástand hans er talið alvarlegt.
Á facebooksíðu lögreglunnar er ökumönnum bent á að hægt sé að komast um Kjósarskarðsveg.
Þeir ökumenn sem eru að koma frá Reykjavík geta ekið Vesturlandsveg, inn í Hvalfjörð og þaðan inn Kjósarskarðsveg. Þeir sem hins vegar eru á leið frá Þingvöllum geta farið Þingvallaveg að Kjósarskarðsvegi og síðan Hvalfjarðarveg.
Enn er unnið að rannsókn á vettvangi og ekki er vitað hvenær Þingvallavegur opnast að nýju.