„Við erum búin að reka þarna fangelsi samfellt í 142 ár svo það er ákaflega sérkennileg tilfinning að loka þessu húsi,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri en Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg verður lokað á morgun og er komandi nótt því sú síðasta sem fangi afplánar í fangelsinu.
Húsið var reist árið 1874 og er því elsta fangelsi landsins, en það hefur hýst þúsundir manna og kvenna sem dæmd hafa verið til refsivistar.
Staðið hefur til um skeið að flytja starfsemi fangelsisins annað, enda hentar húsið ekki til reksturs nútímafangelsis og hefur það undanfarin ár fengið tímabundið starfsleyfi til tveggja ára í senn.
Páll segir húsið hafa gegnt hlutverki sínu, en löngu sé orðið tímabært að loka því. „Það eru allir sáttir við það og spenntir að flytja á nýjan stað en þetta er vissulega sérstök stund og svolítið tregablandin,“ segir hann og bætir við að húsið sé barn síns tíma. „Það þótti mjög fínt þegar það var opnað og þá kom upp lúxusumræða. Svo þótti það líka langt út fyrir borgina en við sjáum hvernig það hefur þróast í dag.“
Í Hegningarhúsinu er pláss fyrir 14 fanga í fimm tveggja manna klefum og tveimur gæsluvarðhalds- og einangrunarklefum. Þangað koma 220–300 fangar á ári, fangelsið er svokallað móttökufangelsi sem þýðir að allflestir karlmenn sem koma til fangavistar byrja þar, en konur fara beint í fangelsið í Kópavogi.
Nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður tilbúið fljótlega og mun starfsemi Hegningarhússins og Kópavogsfangelsisins flytja þangað. Þar verður pláss fyrir 56 fanga, en nú eru samtals 26 pláss í fangelsunum tveimur. Fangelsið á Hólmsheiði mun því taka við sem móttökufangelsi, gæsluvarðhaldsfangelsi og kvennafangelsi.
Formleg opnun verður á fangelsinu á Hólmsheiði 10. júní nk. og í kjölfarið verður lokið við allan frágang þar að sögn Páls. „Þetta lítur mjög vel út og við erum mjög ánægð með það hvernig til hefur tekist eftir áratuga vinnu,“ segir hann en bætir við að ekki verði tekið á móti föngum þangað fyrr en húsið sé alveg tilbúið. „Við erum búin að vinna býsna markvisst í því að sem fæstir komi til afplánunar næstu vikur,“ segir hann en bætir við að fangar sem fari í gæsluvarðhald verði vistaðir í öðrum fangelsum.
Í skýrslu starfshóps sem skipaður var í því skyni að ákvarða framtíð Hegningarhússins var m.a. lagt til að húsið yrði áfram í þjóðareigu og áhersla yrði lögð á að það verði gert upp í sem upprunalegastri mynd.
Páll segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um framtíð hússins, en fyrir liggi að gera þurfi við húsið sem verði nokkuð kostnaðarsamt. „En nú skilum við lyklunum af okkur og þar með er okkar afskiptum af þessu húsi lokið. Svo þarf bara að ákveða framhaldið og við höfum ekkert um það að segja,“ segir hann og bætir við að vonandi fái húsið viðunandi hlutverk. „Það væri gaman að sjá þarna réttarsögusafn en það verður tíminn að leiða í ljós.“
Í nótt verða tveir fangar í fangelsinu, en þeir ljúka báðir afplánun á morgun. Tveir aðrir fangar voru fluttir til afplánunar annars staðar fyrr í dag. Spurður hvort fangar séu ósáttir við að fara úr Hegningarhúsinu svarar Páll neitandi. „Það eru flestir ánægðir með að fara því aðbúnaðurinn er ekki góður þarna,“ segir hann.
Þá fer formleg lokun fram á föstudaginn, 3. júní. „Þetta eru verulega mikil tímamót,“ segir Páll að lokum. „Þetta er eiginlega sérkennileg tilfinning en ákaflega góð.“