Hefði spurt guð um Icesave

Eins og fram kom á framboðsfundi forsetaframbjóðandans Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur leitaði hún til guðs þegar hugmyndin um að sækjast eftir forsetaembættinu kom fyrst upp.

Guðrún er kristin og segist vön að leggja allar mikilvægar ákvarðanir í hendur guðs.

„Ég hef fengið mjög nákvæm svör oft á tíðum og svör sem hafa skipt miklu máli,“ segir Guðrún.

Hún segist hafa flett upp í biblíunni af handahófi þegar kom að spurningunni um forsetaembættið, mörgum sinnum yfir nokkra daga, og alltaf fengið frábær vers. 

„Ef ég veit að ég á að gera eitthvað þá geri ég það, hvað sem það lítur fáránlega út.“

Spurð um hvort guð hefði einnig fengið aðkomu að ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, hefði hún verið forseti á þeim tíma, er svarið einfalt:

„Já ég hefði gert það. Ég hefði spurt um ráðgjöf að sjálfsögðu. Af því að ég hef fengið svo ákveðin svör sem ég hef kannski ekkert skilið í: „Af hverju á ég að gera þetta?“ en svo hef ég séð það seinna: „Já, eins gott ég hlýddi“.“

Guðrún segist áfram myndu leita ráða hjá guði sínum, yrði hún kjörinn forseti, enda sé enn meira undir þegar ákvarðanirnar snúast um heila þjóð. Hún segir heita trú sína ekki munu verða til trafala þegar kemur að því að leiða fjölbreytt samfélag.

„Ég held að það sé bara enn þá betra. Kristnin segir okkur að virða alla og elska alla. Það mun aldrei standa í vegi fyrir að ég sinni öllum þegnum landsins. [...] Forseti þarf náttúrulega alltaf að vera forseti þjóðarinnar, en við eigum kristinn grunn sem þjóð, kristnar rætur.“

Guðrún segir íslensku þjóðina ekki mega glata þessum rótum en að kristnin hafi látið undan á síðustu árum. Hún telji að hvort sem að þjóðin geri sér grein fyrir því eða ekki sé trúin eitthvað sem landið þurfi á að halda.

Vill gefa 50% launanna

Guðrún segir starf sitt á vegum ABC-barnahjálpar koma sér vel í embætti forseta. Hún hafi ferðast um allan heim og starfið hafi gert hana víðsýnni. Hún hafi kynnst bæði þeim lægst settu og verið í sambandi við forseta, ráðherra og allt þar á milli.

„Ég held að þessi reynsla og þessi bakgrunnur nýtist mjög vel. Ég held að sem forseti myndi ég ekki bara gera Íslandi gagn heldur líka þeim fátæku og þeim sem eru undir í öðrum löndum.“

Hvað áhersluatriði í embætti varðar segir Guðrún að hún vilji hafa kærleikann að leiðarljósi og m.a. koma á góðgerðarviku þjóðarinnar þar sem slíkar vikur úr menntaskólum eru hafðar til fyrirmyndar.

„Ég myndi vilja gefa að lágmarki 50 prósent af mínum forsetalaunum í svona góðgerðarmál sem færu í þennan góðgerðarsjóð og ég myndi vilja virkja fólk með mér. Fá þá sem eiga peninga, sem eru á háum launum til að gera það sama. Það er kannski erfitt að fá einhvern einn til að gera svona en þegar það er komin stemmning þá getum við gert svo mikið.“

Kjörstjórnir þekktu hana ekki

Guðrún er einn þeirra frambjóðenda sem njóta hve minnst fylgis samkvæmt skoðanakönnunum. Hún segir það vel geta verið að lítið fylgi hennar komi til af fingrinum sem leitaði í biblíuna.

„Hvað sem verður þá veit ég að ég átti að leggja í þessa vegferð. Ég er alveg pollslök og ef þetta á að verða þá bara verður þetta.“

Mbl.is ræddi við Guðrúnu áður en skilafrestur á undirskriftum rann út. Hún var þá búin að skila tilskildum fjölda en móttökur kjörstjórna voru aðrar en hún átti von á.

„Það var alla vega á þremur ef ekki fjórum stöðum að það var þannig að ég var spurð að nafni. Ég sagði nafnið mitt og þá var næsta spurning: „Og fyrir hvern ert þú að skila?“ Ég er örugglega ekki mjög vel kynnt en það getur líka verið ástæðan fyrir því að ég mælist svona lágt. Fólk veit hreinlega ekki að ég sé í framboði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert