Mótmæla á þingpöllum

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Andri Steinn

Mótmælin á vegum No Borders Iceland sem fóru fram í anddyri innanríkisráðuneytisins hafa færst yfir á þingpalla Alþingis þar sem nú fer fram þingfundur. Ragn­heiður Freyja Krist­ín­ar­dótt­ir, einn skipu­leggj­andi mót­mæl­ana, segir engin svör hafa borist frá Ólöfu Nordal eða innanríkisráðuneytinu í dag.

Eze Okafor var vísað úr landi í síðustu viku. Hann er nú í Svíþjóð en þarlend stjórnvöld hafa gert honum að yfirgefa landið fyrir morgundaginn. Mótmælendur kröfðust þess að brottvísun Eze yrði dregin til baka á meðan mál hans yrði skoðað. 

Frétt mbl.is: Veita Ólöfu frest út skrifstofutíma

„Við vorum í ráðuneytinu í allan dag. Þar óskuðum við eftir því að Ólöf gengist við ábyrgð sinni. Kæmi og veitti okkur svör. Við fengum engin svör en buðum upp á kaffi í ráðuneytinu,“ segir Ragnheiður Freyja. Skrifstofustjóri innanríkisráðuneytisins hlustaði á kröfur mótmælenda en engin samskipti voru á milli starfsmanna ráðuneytisins og mótmælenda eftir það að sögn Ragnheiðar Freyju. 

Eze Okafor.
Eze Okafor. mbl.is

Þegar loka átti ráðuneytinu klukkan 16 í dag fjölgaði í hópi lögreglumanna sem þurftu að fjarlægja mótmælendur úr ráðuneytinu með valdi. „Klukkan fjögur mætti mikið af lögreglu, hátt í 20 lögregluþjónar, og sáu þeir um að taka 20 manna hóp út með valdi,“ segir Ragnheiður Freyja.

Með viðveru mótmælenda á þingpöllum segir Ragnheiður Freyja mótmælendur óska eftir því að þingmenn setji fram fyrirspurn um málið eða öllu heldur að Ólöf svari fyrir málið og dragi brottvísunina til baka á meðan mál Eze verði skoðað.

Eze hitti lögfræðing í dag í Svíþjóð og segir Ragnheiður Freyja lagalega stöðu hans í Svíþjóð vera mjög erfiða. „Þeir hafa neitað honum um meðferð og mér er sagt að hælisumsóknin hans sé lokuð. Hún verði ekki opnuð aftur. Þetta undirstrikar ábyrgð íslenskra stjórnvalda því í mannréttindasáttmálanum og flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna  er kveðið skýrt á um að ekki megi vísa einstaklingi til baka í ástand þar sem líf viðkomandi er ótryggt,“ segir Ragnheiður Freyja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert