Hallgrímskirkja hefur í gegnum tíðina prýtt hina og þessa topplista, eins og t.d. tíu áhugaverðustu kirkjur heims, 35 sérlega skrýtnar byggingar sem fá þig til að súpa hveljur og lista yfir áhugaverðustu steypumannvirki heims. Nú er kirkjan komin á enn einn listann sem er yfir bestu íhugunarstaði heims og er þar m.a. í félagsskap Grafarkirkjunnar í Jerúsalem og klausturs heilags Markúsar í Feneyjum.
Áætlað er að á milli 500.000 og 700.000 erlendir ferðamenn hafi heimsótt kirkjuna í fyrra og bæta hefur þurft við starfsmönnum þar vegna gestafjöldans. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, segir að fólk á öllum aldri og víða að úr heiminum sæki kirkjuna heim; sumir til íhugunar og kyrrðarstundar, aðrir vilji fræðast um Hallgrím Pétursson eða trúarlíf Íslendinga.
Hann segir að 150-200.000 erlendir ferðamenn hafi farið með lyftunni upp í turn kirkjunnar í fyrra og ljóst sé að kominn sé tími á nýja og hraðskreiðari lyftu. Vonast er til að hún verði komin í gagnið ekki síðar en á næsta ári. 4