Var ekki að tala um heimskt fólk

Guðni Th. Jóhannesson flutti erindi á málþingi í Öskju í …
Guðni Th. Jóhannesson flutti erindi á málþingi í Öskju í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá því að lokasigur vannst í baráttu Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar eiga ólíkar minningar um þorskastríðin, sjónarhólarnir eru ólíkir og sem betur fer er það svo að við verðum aldrei sammála. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi, í erindi sínum um þorskastríðin í Öskju í dag.

Guðni fjallaði um „valdar minningar um liðin átök“ á málþingi um sögu þorskastríðanna, en í dag eru 40 ár liðin frá því að lokasigur vannst í baráttu Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Hann sagði um að ræða sögu sem Íslendingar þyrftu að kunna, muna og segja, en meiningar manna væru mismunandi.

Frétt mbl.is: Túlki ummælin ekki bókstaflega

Kom Guðni í framhaldinu inn á myndlíkingu sem hann var spurður um í þættinum Eyjan á sunnudag. Talaði hann um „fræðimenn í fílabeinsturni“ annars vegar og „fávísan lýð“ hins vegar. Þar ætti hann ekki við heimskt fólk, heldur þætti fræðimönnum í eigin heimi, sem freistuðu þess að veita fólki nýja sýn, annað fólk ef til vill tregt til að meðtaka þá sýn.

Þá skaut hann á Staksteina Morgunblaðsins, þar sem hann var sagður hafa rætt um minningar „ómenntaðrar sveitakonu“ í fyrirlestri á Bifröst, og varpaði upp glæru sem sýndi að í raun og veru var það nemandi hans sem sagði svo frá minningum móður sinnar.

Hér má lesa Staksteina Morgunblaðsins.

Fræðin vs. upplifun og minningar

Guðni sagði þorskastríðin ekki endilega falla undir hefðubundnar skilgreiningar á stríðum, en á sama tíma mætti ekki gera lítið úr átökunum. Hann rakti það hvernig greina mætti deiluna í ólík tímabil og hvernig hún hefði verið háð utan- og innanlands. Íslendingar hefðu hótað Bretum, og Bandaríkjamönnum, að ganga úr Nató og loka herstöðinni, en innanlands hefðu menn líka tekist á; varðskipsmenn gegn embættismönnum, embættismenn gegn stjórnmálamönnum, flokkar gegn flokkum, stjórn gegn stjórnarandstöðu.

„Samstaðan var aldrei órofa,“ sagði Guðni. Stóra myndin sýndi að Íslendingar hefðu staðið saman og unnið sigur, en fínni drættir leiddu í ljós að þannig var það ekki alltaf.

Um minningar af atburðum sagði Guðni sjónarhorn fræðimannsins og þess sem hefði upplifað atburði ólík. Nefndi hann dæmi um harkaleg viðbrögð sem rannsóknir dansks fræðimanns vöktu, en sá komst að þeirri niðurstöðu að danska andspyrnuhreyfingin hefði í raun haft lítil áhrif í seinni heimstyrjöldinni. Sagði Guðni að þarna tækjust á fræðin annars vegar og hugur og hjörtu þeirra sem hefðu lifað söguna hins vegar.

Varðandi þorskastríðin sagðist Guðni vilja tala um „ýkta sögu einingar, sigra og áhrifamáttar“; samstaðan hefði ekki verið órofin, sigrarnir ekki alltaf ótvíræðir, og að niðurstaðan hefði ekki haft úrslitaáhrif á alþjóðavettvangi.

Er þorskastríðunum lokið? spurði hann. „Öll saga er lifandi saga, en við ættum að geta rætt átökin æsingalaust,“ sagði Guðni. 

Hann lauk erindi sínu á að varpa upp kynningarglæru um háskólakúrs í þorskastríðunum. „Fari svo að ég verð áfram háskólakennari getið þið sótt þennan kúrs hjá mér,“ sagði frambjóðandinn og uppskar hlátur viðstaddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert