Ellefu nemendur úr 7. bekk í Fossvogsskóla hafa búið til hljóðfæri úr reiðhjóli. Verkið var afhjúpað á uppskeruhátíð um Biophiliu-menntaverkefnið, og verður til sýnis í Ráðhúsi Reykjavíkur alla helgina.
„Við erum hjólaskóli og eigum fullt af hjólum svo við fengum að nota eitt hjólanna og bjuggum til hljóðfæri úr því,“ segir Mira Esther, sem er á meðal nemendanna í hópnum. Dögg, sem einnig er í hópnum, segir hugmyndina hafa komið þegar Ragna Skinner, tónmenntakennari í skólanum, sýndi bekknum myndband af sænsku hljómsveitinni Vintergatan.
„Þar bjó maðurinn í myndbandinu til sitt eigið hljóðfæri og okkur langaði að vera sköpunarglöð og gera eins,“ segja þær stöllur, en hópurinn spilaði á hjólið fyrir fullum sal í Ráðhúsinu í dag. Aðspurðar segja þær báðar að Biophiliu-verkefnið hafi verið einstaklega skemmtilegt.
Guðrún María Ólafsdóttir, náttúrufræðikennari við skólann, segir að það hafi sífellt komið á óvart hversu frumleg og skapandi börnin og ungmennin í skólanum hafi verið þegar þau unnu Biophiliu-verkefnið.
Mikið líf og fjör var í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, en þar fór fram uppskeruhátíð Biophiliu-menntaverkefnisins. Hátt í fjögur hundruð börn frá átta skólum, leikskólum og frístundamiðstöðvum hafa tekið þátt í verkefninu, sem byggir á samnefndu listaverki og hugmyndafræði Bjarkar Guðmundsdóttur.
Sýningin verður opin um helgina, en þar er fagnað afrakstri þess frjóa starfs sem farið hefur fram í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum í Reykjavík í norrænu samstarfsverkefni um Biophiliu. Þátttakendur í verkefninu eru Austurbæjarskóli, Dalskóli, Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Fossvogsskóli, leikskólinn Miðborg, leikskólinn Kvistaborg, Sæmundarskóli og Vogaskóli.
Með verkefninu er sköpunargáfan virkjuð sem kennslu- og rannsóknarverkfæri og tónlist, tækni og náttúruvísindi eru tengd saman á nýstárlegan hátt. Áhersla er lögð á að styrkja nemendur í sjálfstæðri hugsun og efla sjálfstraust þeirra með virkri þátttöku, tilraunum, leik og sköpun. Verkefnið er tilraun til þess að brjóta upp hefðbundið kennsluform með þverfaglegri nálgun og spjaldtölvum, þar sem jafnt kennarar sem nemendur kanna nýjar slóðir.
Frétt mbl.is: Sköpunargleðin í hámarki í Biophiliu