Fjölskyldusport að flokka sorp

Bryndís Loftsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, er ánægð með verkefnið og …
Bryndís Loftsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, er ánægð með verkefnið og segir það einfalda flokkunina hjá sinni fjölskyldu. mbl.is/Johann Pall Valdimarsson

„Við höfðum áður verið að taka plastið frá ruslinu og farið sjálf með það á Sorpu en það er mun þægilegra að geta bara sett það í stóran poka og komið því fyrir í gráu tunnunni á tveggja vikna fresti,“ segir Bryndís Loftsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, um verkefnið Skapaðu framtíðina sem er tilraunaverkefni á vegum Sorpu og bæjarins og snýr að söfnun og endurvinnslu á plastumbúðum. 

Hún segir það í raun hálfgert fjölskyldusport á sínu heimili að flokka sem mest. „Við erum alltaf að bæta okkur og höfum afar gaman af þessu.“ Bryndís býr ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum á Nesinu og hefur fjölskyldan ætíð verið dugleg við flokkun. 

Fjölskyldan flokkar flöskur, pappír, plast og gler en einnig er sorpkvörn í eldhúsvaskinum sem gerir það að verkum að flest allur lífræni úrgangurinn fer beinustu leið út í sjó. „Við reynum að láta sem minnst fara í almennu tunnuna. Í stóru og smáu samhengi skiptir þetta allt saman máli og manni líður betur þegar maður flokkar ruslið sitt.“ Þá eru fjölskyldan einnig með garðtunnuna sem Bryndís segir algjöra búbót. „Maður getur ekki alltaf verið að leigja kerru fyrir garðúrgang og þess vegna er tunnan alveg frábær svipa á lata garðeigendur eins og mig til að dröslast út í garð og fylla tunnuna.“

Bryndís er afar ánægð með garðtunnuna og segir hana frábæra …
Bryndís er afar ánægð með garðtunnuna og segir hana frábæra hvatningu fyrir lata garðeigendur. Ljósmynd/Bryndís Loftsdóttir

Hvetur framleiðendur til að merkja umbúðirnar

Bryndís bendir einnig á hversu fyrirferðmiklar plastumbúðir séu í okkar umhverfi og mikilvægi þess að fólk hugi að því að minnka plastnotkun sína. „Plastumbúðir eru svakalega fyrirferðamiklar og hægt er að minnka notkun á þeim til dæmis með því að fara með fjölnota poka í búðina og með því að sleppa því að setja ávextina og grænmetið í sér einnota poka.“

Að lokum vill Bryndís hvetja framleiðendur íslenskra vara til að merka sínar umbúðir og hvetja fólk til flokkunar. „Þegar maður er að byrja að flokka getur verið erfitt að átta sig á hvað á að fara í hverja tunnu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert