Helga Sigrún nýr kosningastjóri Bjartrar framtíðar

Frá vinstri: Valgerður Björk Pálsdóttir framkvæmdastjóri, Unnsteinn Jóhannsson upplýsinga- og …
Frá vinstri: Valgerður Björk Pálsdóttir framkvæmdastjóri, Unnsteinn Jóhannsson upplýsinga- og samskiptafulltrúi og Helga Sigrún Harðardóttir kosningastjóri.

Helga Sigrún Harðardóttir hefur verið ráðin tímabundið í starf kosningastjóra Bjartrar framtíðar vegna komandi alþingiskosninga.

Helga Sigrún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri og lögfræðingur höfundaréttarsamtakanna Fjölís. Hún er lögfræðingur að mennt, auk þess sem hún er með meistarapróf í samskiptastjórnun, diplóma í náms- og starfsráðgjöf og kennarapróf. Þá hefur hún m.a. starfað sem verkefnastjóri hjá Impru, nýsköpunarmiðstöð og við atvinnuráðgjöf á Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar.

Jafnframt starfaði Helga Sigrún sem skrifstofustjóri þingflokks Framsóknar á árunum 2005-2008 og sat á þingi frá nóvember 2008 til apríl 2009. Í kjölfarið sagði hún sig úr flokknum og hefur ekki átt aðild að stjórnmálaflokkum síðan, þar til nýverið er hún tók sæti fyrir hönd Bjartrar framtíðar í félagsmálaráði Kópavogsbæjar og í stjórn Reykjanesfólksvangs.

Ný kosningaskrifstofa Bjartrar framtíðar var opnuð í dag að Bræðraborgarstíg 9 í Reykjavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert