Í nýrri skýrslu sem Samtök iðnaðarins fengu Lars Christensen hagfræðing til að vinna eru lagðar til róttækar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja á Íslandi.
Telur hann að yfirburða markaðshlutdeild Landsvirkjunar á sviði orkuframleiðslu hamli eðlilegri samkeppni og valdi því að verðmyndun á markaði kunni að skekkjast.
Af þeim sökum gerir hann tillögu um að tilteknar virkjanir verði seldar út úr fyrirtækinu og þannig verði til fleiri og smærri fyrirtæki á sviði orkuvinnslu í landinu. Þar að auki leggur hann til að Landsvirkjun, í breyttri og smækkaðri mynd, verði seld til einkaaðila, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.