Samtökin No Borders Iceland hafa skorað á þingmenn að samþykkja ekki nýtt útlendingafrumvarp í þeirri mynd sem það er í dag.
„Lögin eins og þau eru fyrir, og kerfið allt, þarfnast sárlega breytinga, en frumvarpið sem nú er lagt verður fyrir þingið býður ekki upp á þær breytingar sem þörf er á. Frumvarpið mun hafa í för með sér að réttindi sumra, svo sem umsækjenda um alþjóðlega vernd, verði skert enn frekar og að málsmeðferð útlendinga almennt verði svo gölluð að mögulega brjóti það í bága við réttindi skráð í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála,“ segir í tilkynningu frá No Borders Iceland.
No Borders Iceland hafa barist fyrir því að umsókn Eze Okafor um dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarsjónarmiðum verði samþykkt.
Í tilkynningunni segir enn fremur: „Þá verður kærunefnd útlendingamála enn frekar pólitísk þar sem formaður og varaformaður geta verið skipaðir beint af ráðherra samkvæmt frumvarpinu, og síðan tekið sér einvald um ákvarðanatöku í málum af eigin vali. Ráðherra verður að auki í lófa lagið að umbuna og refsa nefndarmönnum eftir hentisemi, með allt ákvarðanavald um laun af störfunum á sínum höndum.“