Sjaldgæf sjón í Seljahjallagili

Fossinn í Seljahjallagili er afar sjaldgæf sjón.
Fossinn í Seljahjallagili er afar sjaldgæf sjón. Ljósmynd/kip.is

„Í Seljahjallagili eru klettadrangar með einu fallegasta stuðlabergi á landinu og það er sjaldgæf sjón að sjá foss þarna,“ segir Kristinn Ingi Pétursson, leiðsögumaður og áhugaljósmyndari, sem náði mynd af fossi í Seljahjallagili í Mývatnssveit síðastliðinn sunnudag.

„Það eru ofboðslega miklar leysingar í fjallinu fyrir ofan gilið og leysingarvatnið myndaði á sem fossaði svo niður gilið,“ segir Kristinn Ingi í samtali við mbl.is. Seljahjallagil var friðlýst árið 2012 sem náttúruvætt af Umhverfisstofnun. Á vef stofnunarinnar kemur fram að markmið friðlýsingarinnar sé að vernda sérstæðar jarðmyndanir, auk þess sem svæðið hafi mikið fræðslu- og útivistargildi. Í náttúruvættinu er einnig að finna fálkaóðul sem setin eru árlega.

Kristinn Ingi segir fossinn sjaldgæfa sjón og þegar heimamenn hafi frétt af honum hafi þeir drifið sig á staðinn til að ná mynd. „Ég veit ekki hvað þetta helst lengi en fossinn er enn í gilinu núna. Mig grunar að í hlýindum gerist þetta oftar á vorin, þetta gæti hugsanlega gerst á hverju ári." 

Myndin hans Kristins Inga er sennilega eina loftmyndin sem til er af fossinum en hún var tekin úr flugvél síðastliðinn sunnudag. Kristinn Ingi var á flugi í rúmar þrjár klukkustundir ásamt frænda sínum og myndaði Ódáðahraun, Öskju, Dettifoss og Mývatnssveit.

Myndirnar hans Kristins Inga eru sennilega einu loftmyndirnar sem til …
Myndirnar hans Kristins Inga eru sennilega einu loftmyndirnar sem til eru af fossinum. Ljósmynd/kip.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka