Ekki hægt að lenda í Keflavík vegna þoku

Hér má sjá flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvelli í nótt.
Hér má sjá flugvél Icelandair á Reykjavíkurflugvelli í nótt. Ljósmynd/Fáfnir Árnason

Tvær þotur þurftu að lenda á Reykjavíkurflugvelli í nótt og ein á Egilsstöðum vegna þoku. „Það er mjög sjaldgæft að það sé ekki hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna skyggnis því flugvöllurinn hefur mjög góðan búnað og lítið af hindrunum í kring en þarna var alveg þykk þoka,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Frétt mbl.is: Svartaþoka yfir borginni

Þoturnar sem lentu á Reykjavíkurflugvelli voru frá flugfélögunum Icelandair og Germanwings og lentu klukkan 00:20 og 00:40 í nótt. Þotan sem lenti á Egilstöðum var frá flugfélaginu Air Berlin og var á leið frá Hamborg.

Fór aftur til Hamborgar 

Í stað þess að halda för sinn áfram á Keflavíkurflugvöll frá Egilsstöðum tók þotan eldsneyti á flugvellinum, lét nokkra farþega af og flaug síðan aftur til Hamborgar. Guðni segist ekki vita ástæðu þess að flugvélin hafi ákveðið að snúa aftur til Hamborgar en telur líklegt að flugfélagið hafi einhverja skýringu á þessu. „Maður veit ekki alveg pælinguna á bak við þetta, hvort flugmennirnir hafi verið komnir á tíma eða hvað en allt voru þetta farþegar á leið til Íslands.“

Guðni segir skipta miklu máli að hafa alþjóðaflugvellina klára í tilfellum sem þessum þó sjaldgæf séu. „Þetta gerist ekki oft á veturna og er afar sjaldgæft yfir sumartímann. Ég leit á vefmyndavél af Reykjanesbæ í nótt og það sást bara hvítt, var ekkert skyggni.“

Um klukkan þrjú í nótt tók að létta til og hægt var að lenda á Keflavíkurflugvelli.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert