Davíð Oddsson segir það ekki rétt að Guðni Th. Jóhannesson hafi ekki verið búinn að ákveða að fara í forsetaframboð þegar hann var tíður gestur á skjáum landsmanna sem óháður álitsgjafi RÚV í vor. Þetta kom fram í umræðum allra forsetaframbjóðendanna á RÚV nú í kvöld.
Guðni hafði sagt fyrr í þættinum að hann hafi ekki verið búinn að ákveða framboð þegar hann var álitsgjafi RÚV.
Frétt mbl.is: Ástþór skýtur á Guðna og Davíð
Þáttastjórnendur sögðu Davíð um að hafa beint spjótum sínum að Guðna í kosningabaráttu sinni frekar en að ræða um sjálfan sig. Davíð sagði þá mælingu vera af og frá.
„Ég hef talað um breytingar á þessu embætti og lýst því. Ég vil hugsa heim og einbeita mér að því að byggja upp innviðina hér heima,“ sagði Davíð en bætti því við að auðvitað þyrfti að tala máli Íslands út á við. „Ég hef betri forsendur en flestir til þess,“ sagði Davíð og vísaði til reynslu sinnar og tengsla.
Davíð sagði forseta fortíðarinnar hafa alla verið umdeilda, nema kannski Kristján Eldjárn. „Ég er þeirra skoðunar að stjórnmálamaður sem er ekki umdeildur, að það sé ekki mikill veigur í honum. Ég tel að þessir forsetar hafi sýnt okkur þegar þeir komu í starfið að þeir hafi breyst í það að vera leiðtogar allrar þjóðarinnar,“ sagði Davíð.
Benti hann á að Franklin D. Roosevelt hafi verið umdeildasti forseti Bandaríkjanna, en hafi haft mikil áhrif við það að binda enda á síðari heimsstyrjöldina.
Þegar Davíð var spurður að því hvort hann gæti verið forseti þjóðarinnar eftir „skylmingar“ við stjórnmálamenn í stjórnartíð sinni benti Davíð á að þó svo að Ólafur Ragnar Grímsson hafi verið formaður Alþýðubandalagsins hálfu ári áður en Davíð var falið stjórnarmyndunarumboð eftir Alþingiskosningarnar 1995.
„Ég hafði ekki áhyggjur af því að hann hafi verið nýbúinn að vera formaður, hálfu ári fyrr,“ sagði Davíð um Ólaf.
Benti hann á að ef pólitísk fortíð hefði einhver áhrif hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki getað verið við stjórnvölin hérlendis í um 70 ár enda hafi forseti aldrei komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins.