„Fórnarlömb eigin velgengni“

Árni Páll í ræðustól á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.
Árni Páll í ræðustól á landsfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Nú á eftir læt ég af formennsku í Samfylkingunni. Ég veit að sum ykkar eru ósátt við það, en líka að einhver ykkar eru dauðfegin að vera laus við mig. Það er eins og það alltaf er.“ Með þessum orðum hófst lokakafli í landsfundarræðu Árna Páls Árnasonar fráfarandi formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins á Grand Hotel í dag. 

„Það eru nú rétt níu ár frá því ég var kjörinn á þing og ég hef á þessum tíma notið gríðarlegs trausts og trúnaðar ykkar. Fyrir það þakka ég í dag. Ég hef frá hruni – í nærri átta ár – varið flestum vökustundum í glímuna við stærstu spurningar samtímans, vegna þess að þið settuð mig til þeirra verka,“ sagði Árni Páll og taldi upp þau verkefni sem flokkurinn þurfti að takast á við í kjölfar efnahagshrunsins.

„Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og leiðir til að forðast að ríkisvæða tjónið af hruninu, þróun greiðsluaðlögunar og margháttaðra annarra leiða til að lækka skulda heimila og fyrirtækja á kostnað kröfuhafa en ekki almennings, viðureign við fordæmalaust atvinnuleysi og þróun úrræða fyrir ungt atvinnulaust fólk, uppbygging hjúkrunarheimila, leit að nýjum húsnæðislausnum, óhjákvæmilegur og sársaukafullur niðurskurður velferðarútgjalda, þróun aðgerðaáætlunar um afnám hafta, leitin að rökum sem gætu tryggt okkur sigur í Icesave og grunnur að endurskipulagningu fjármálakerfis og svo síðustu misserin þátttaka í leitinni að réttri leið til að glíma við slitabú fallinna banka, baráttan gegn klíkuveldi í viðskiptalífinu og baráttan fyrir að halda á lífi aðildarumsókn Íslands á evrópskum vettvangi. Er hægt að biðja um merkilegri viðfangsefni? Það verður enginn samur eftir svona lífsreynslu og ég þakka fyrir hana af heilum hug.“

Hann minnti landsfundargesti á að gera ekki of miklar kröfur á nýkjörinn formann. Næsti formaður þurfi sterkan hóp að baki sér til að snúa stöðunni við.

„Einn maður mun ekki breyta þessari stöðu og við skulum ekki láta okkur detta í hug að fara fram á það. Formaður rís á öldu. Þá öldu þarf flokkurinn sjálfur að skapa. Við þurfum að sameinast um þá afstöðu að við viljum vinna saman og að við teljum það skipta meiru að vinna saman en að vera sitt í hvoru lagi. Á það hefur mér þótt skorta undanfarin misseri og orðræða í þá veru að sumir flokksmenn séu of mikið svona og of mikið hinsegin til að geta verið sannir jafnaðarmenn er orðræða lítils klíkuflokks en ekki stórrar fjöldahreyfingar. Við þurfum að fagna fjölbreytileikanum.“

Árni Páll gerði stöðu jafnaðarmennsku í stjórnmálum í heiminum í dag að umræðuefni í ræðu sinni. 

„Stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna mótaðist sem réttlætishreyfing fólks sem enga rödd átti. Það er engin tilviljun að kosningaréttur fátækra karla og efnaðri kvenna er 101 árs í dag og stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna 100 ára. Það var einfaldlega engum kjósendum jafnaðarmanna til að dreifa, fyrr en kosningaréttur varð almennur. Og barátta næstu áratuga markaðist af því að ný verkalýðsstétt sótti sér réttindi. Vökulög, atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar og almenn skólaganga. Orlof og lög um jöfn laun karla og kvenna.“

„Í öllum þessara mála var hægt að búa til stóra hreyfingu sem hélt, því svörin voru annaðhvort eða og hagsmunirnir eðlislíkir. Almannatryggingar eða ekki almannatryggingar. Það var auðvelt að fylkja fólki saman um þessi mál.“

„Sejret os ihjel“

Árni Páll segir jafnaðarmenn vera fórnarlömb eigin velgengni í gegnum árin. 

„En eftir að öll þessi uppbygging var í höfn breyttist áhersla jafnaðarmanna á að vera hið ábyrga stjórnarafl. Og einhvers staðar á þeirri leið hættum við að láta okkur dreyma um framtíðina og sættum okkur við að forgangsraða með öðrum hætti innan gildandi kerfis, án grundvallarbreytinga. Kannski af því að við höfðum eins og danskir félagar okkar segja „sejret os ihjel“ – sigrað okkur til dauðs.“

„Ekki misskilja mig. Árangur síðustu aldar er ótrúlegur – hér á landi sem um allan heim. Og við erum fórnarlömb eigin velgengni. Jafnaðarhreyfingin hefur alltaf verið alþjóðleg hreyfing. Baráttan fyrir auknum milliríkjaviðskiptum og aukinni velsæld fólks í fátækari löndum hefur verið drifin áfram af jafnaðarmönnum, allt frá tíma Willy Brandt og Gro Harlem og yfir til Tony Blair og Gerhard Schröder. Stefna jafnaðarmanna hefur lyft milljörðum manna úr algerri örbirgð.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Frá draumum yfir í Excel-skjöl

Að sögn Árna Páls hafa jafnaðarmenn í auknum mæli hætt að láta sig dreyma og hafa þeir í stað þess gengið Excel-skjalinu á hönd. 

Þegar jafnaðarmenn urðu sáttir við að forgangsraða og hættu að láta sig dreyma, gengumst við líka inn á hefðbundna mælikvarða hagkvæmni og létum excel-skjalið ráða frekar en hjartað. Þegar ég var lítill strákur og kom úr sveitinni í heimsókn til afa og ömmu í Norðurmýrinni sá ég mann með Downs-heilkenni sem sópaði göturnar. Ég fylgdist með honum árum saman og hann sinnti starfi sínu vel og var hluti af samfélaginu. Engin slík störf eru í boði í dag og vélar sópa göturnar. Allt er boðið út og rekið með hagkvæmum hætti. Við gengumst líka inn á að fyrirtæki ættu bara að skila hagnaði og ekki axla neinar samfélagslegar skyldur. Ekkert væri athugavert við að bankar högnuðust á að sjúga fé frá fólki og verðmætaskapandi fyrirtækjum, en sköpuðu ekkert nýtt eða gott. Af hverju skiptir ekki lengur máli að gera gott?

Að lokum þakkaði Árni Páll félögum sínum í Samfylkingunni fyrir samstarfið. 

„Ég þakka fyrir formannstíð mína og þá sérstaklega mínu nánasta samstarfsfólki, ráðgjöfum og starfsfólki flokksins. Þegar ég horfi til baka yfir þessi rúmu þrjú ár ber hæst viðsnúninginn eftir kosningaósigurinn 2013 og þá árangursríku uppbyggingu sem við fórum í fram til sveitarstjórnarkosninganna ári seinna. Þá þvældist ég um allt land og fundaði með ykkur öllum vítt og breitt.“

„Þessi samskipti eru það skemmtilegasta við starf formanns Samfylkingarinnar – að hitta fólkið okkar vítt og breitt um land. Á þessum þremur árum telst mér til að ég hafi fundað í yfir 50 þéttbýlisstöðum vítt og breitt um land og í mörgum þeirra margoft. Eftir sitja margar minningar og sögur sem ég mun geyma með mér alla mína ævi,“ sagði Árni Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert