Hafna fullyrðingum Sigmundar

Skjáskot úr viðtalinu fræga.
Skjáskot úr viðtalinu fræga. Skjáskot/RÚV

Ritstjórar og fréttamenn Reykjavík Media, Kastljóss og Uppdrag Granskning hafna því að handrit að Kastljósþættinum fræga, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var spurður út í tengsl sín við aflandsfélagið Wintris, hafi verið fyrirfram ákveðið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ofangreindir aðilar sendu frá sér í dag og birt var á Facebook-síðu Reykjavík Media. Tilefnið voru ummæli sem Sigmundur lét falla fyrr í dag á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins en þar sagði hann atburðarrásina hafa verið hannaða til að koma höggi á Framsóknarflokkinn.

Í yfirlýsingunni kemur fram að ítrekað hafi verið reynt að fá Sigmund Davíð til þess að koma fram í öðru viðtali til að útskýra aðkomu sína að félaginu. „Hefði Sigmundur Davíð þegið ítrekuð boð um að koma fram í viðtali til að útskýra aðkomu sína að Wintris Inc, hefði handrit og uppbygging þáttarins án efa orðið öðruvísi,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir enn fremur að honum hafi verið boðið að ræða við annan fréttamann en Jóhannes Kr. Jóhannesson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Golli

„Það er því ekki rétt sem Sigmundur Davíð hélt fram á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag að hann og starfsfólk hans hafi aflað gagna og reynt að svara öllum spurningum varðandi Wintris Inc og að handrit að þættinum hafi verið skrifað fyrirfram,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan þar sem einnig eru birtir tölvupóstar sem sendir voru til aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs á sínum tíma vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert