Hallast að því að gefa kost á sér

Árni Páll í ræðustól á landsfundi Samfylkingarinnar í gær.
Árni Páll í ræðustól á landsfundi Samfylkingarinnar í gær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ég hallast að því að gefa kost á mér á nýjan leik í haust en það er háð því að það sé eftirspurn eftir mér,“ segir Árni Páll Árnason sem lét af embætti formanns Samfylkingarinnar í gær spurður að því hvort hann ætli að gefa kost á sér fyrir flokkinn í kosningum í haust.

Nú tekur hins vegar við langþráð frí.

„Ég ætla fyrst og fremst núna að njóta þess að fara í almennilegt sumarfrí og horfa á fótbolta í Frakklandi,“ segir Árni Páll.

Sjá frétt mbl.is: „Fórnarlömb eigin velgengni“

Nýtt fyrirkomulag á landsfundi tókst vel að mati Árna.

„Mér finnst fundurinn hafa tekist vel, það voru athyglisverðar málstofur hér í gangi. Við leyfðum nýtt fyrirkomulag þar sem við leyfðum hinum almenna félagsmanni að móta stefnuna en ekki að vera að hanna eitthvað ofan í þá. Mér finnst það hafa tekist vel, þetta var tilraun sem við gerðum.“

„Nú er kominn efniviður sem getur nýst í kosningastefnu og er það nýrrar forystu að pakka því inn og nota sem stefnu í kosninga. Við boðuðum til þessarar fundar til þess að finna okkur viðspyrnu og ég held að það hafi tekist. Hér var ágætis stemning í dag og það var mikivlægt að skapa tækifæri fyrir fólk til þess að þjappa sér saman.“

Ánægður með nýja varaformanninn

Aðspurður hvort flokkurnin gangi nægilega sterkur út af landsfundi í kosningabaráttu segir Árni:

„Við skulum vona það og að við getum markað okkur trúverðuga stefnu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Það er mikil samkeppni í grennd við okkur í stjórnmálunum. Við sjáum könnun núna þar sem Viðreisn er orðin stærri en Samfylkingin. Það ætti að hvetja okkur til dáða. Samfylkingin ætti að tala með skýrum hætti til alls þess fólk sem vill almennar leikreglur, opið land og almenna samkeppni í landinu. Það fólk hefur hingað til upp til hópa stutt Samfylkinguna.“

Árni Páll lýsti ekki yfir styðningi við neinn formannsframbjóðanda en segist ánægður með nýkjörinn varaformann.

„Ég kaus að lýsa ekki yfir stuðningi við neinn. Ég tel að það hafi tekist ákaflega vel til við val á varaformanni flokksins og sterkt fólk kemur inn í framkvæmdastjórnina. “

Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, var í gær kjörinn varaformaður flokksins. Árni Páll ber Loga söguna vel og þekkir vel til starfa hans. 

„Logi er afbragðsmaður og hefur verið mjög frískur stjórnmálamaður á Akureyri. Hann hefur náð mjög góðum hljómgrunni fyrir sinn málflutning á Akureyri. Ég hef starfað náið með honum og vann mikið með félögum okkur í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Það reyndi mikið á hann og hann leiddi flokkinn inn í meirihlutasamstarf sem hefur verið mjög gifturíkt fyrir Akureyringa. Hann er stjórnmálamaður í fremstu röð og fengur að fá fulltrúa landsbyggðarinnar sem varaformann,“ segir Árni Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert