Þurfum að tryggja jafnrétti til náms

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Umræðan hefur algjörlega litið til þess hvernig afborganirnar líta út en mér finnst mikilvægara að stjórnvöld tryggi það að nemendur hafi aðgang að fjármögnun," sagði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra á opnum fundi um LÍN-frumvarpið með stúdentahreyfingunni í Háskóla Reykjavíkur í dag.

Illugi byrjaði á því að kynna frumvarpið fyrir fundargestum og sagðist vilja sjá nýtt réttlátara kerfi með meira gagnsæi. Hann sagði sitt helsta réttmætismál vera að allir nemendur hafi aðgang að fjármagni til að stunda nám sitt en þar á eftir kæmi að styrkjum yrði dreift sem jafnast.

Hann segir ekki lagt upp með að breytingar verði gerðar á úthlutunarreglum. Þá eiga þeir sem tekið hafa lán í núverandi kerfi að geta haldið áfram í því kerfi. 

Borga samhliða af lánum í gamla og nýja kerfinu

Næst var fundargestum gefinn kostur á að bera fram spurningar sínar. Þar var meðal annars spurt um það af hverju stúdentar hafi ekki átt sæti í þeirri nefnd sem hafði umsjón með frumvarpinu. Illugi sagði að starf nefndarinnar hafi verið að kalla eftir viðbrögðum frá öllum hagsmunaðilum, þeim sem hafa ekki hafið sitt nám, þeim sem eru í námi og þeir sem hafa klárað sitt nafn. „Ég held að þetta sé algjörlega fullnægjandi aðferð til að öll sjónarmið komi fram.“ 

LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna.
LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna. mbl.is/Hjörtur

Þá var spurt um hvernig afborgunum yrði háttað þegar tekin eru lán í tveimur mismunandi kerfum. Í þeim tilfellum mun einstaklingur borga af lánum sínum í nýja kerfinu og eldra kerfinu samhliða. Sérstakt ákvæði er í frumvarpinu um að sömu vextir gildi þegar borgað er af láninu og þegar það er tekið.

Aðspurður um hvað muni koma sérstaklega til athugunar við lokafrumvarpið, eftir þá gagnrýni sem þetta frumvarp hefur fengið, segir Illugi að það séu aðallega atriði sem varða doktorsnám sem hægt væri að skoða betur. „Við viljum hafa kerfið þannig að fólk sé ekki á námslánum í doktorsnámi. Við viljum fjölga doktorsnemum og að það sé kerfi sem taki á móti þeim sem geti fjármagnað rannsóknir með kennslu og öðru slíku.“

Hagsmunaðilar hvattir til að koma með athugasemdir

Á næstu dögum verður frumvarpið sett inn á vefsvæði menntamálaráðuneytisins. Þá verður haft samband við alla hagsmunaaðila og þeir hvattir til að koma með athugasemdir og umsagnir. „Því fyrr sem athugasemdir koma því betra fyrir okkur og þá höfum við tækifæri til að bregðast við,“ segir Illugi. Þá verður farið í undirbúa frumvarpið til þinglegrar meðferðar í haust.

Þann 15. ágúst mun þingið síðan koma saman á ný og mun Illugi þá mæla fyrir frumvarpinu. „Ég hef trú á því að það þurfti að hækka framfærsluna upp í hundrað prósent og tel að það sé gríðarlegt réttlætis- og hagsmunamál að það nái fram að ganga.“

Frétt mbl.is - LÍN-frumvarp: Áhrif á lántaka  

 

 

 




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert