„Almennt held ég að vandi Samfylkingarinnar sé miklu dýpri en svo að honum verði bjargað með því að skipta um formann. Ég er allavega ekki viss um það til skemmri tíma litið að formannaskipti muni gera gæfumuninn,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.
Hann segist ekki geta séð hvað nýr formaður eigi að geta gert til að auka fylgi flokksins fyrir komandi kosningar, hvort sem það væri Oddný eða einhver annar, og segir verk Samfylkingarinnar taka lengri tíma. „Björt framtíð skipti um formann og það skipti nánast engu máli.“
Þá segir Grétar Þór það hafa legið fyrir lengi að ímynd flokksins út á við og á meðal eigin stuðningsmanna sé sú að þar ríki fyrst og fremst sundrung og ósamlyndi. „Ef Samfylkingunni tekst að koma þeim sterku skilaboðum á framfæri út að við fyrir kosningar að þar ríki ekki ósamstaða lengur þá mun það örugglega hafa einhver jákvæð áhrif. Kannski getur nýr formaður haft þar einhver hlutverk.“ Hann segir það þó fyrst og fremst flokksmanna að vinna að því að senda þessi skilaboð út.
Grétar Þór hefur ekki kynnt sér 130 daga áætlun Oddnýjar til þess að auka fylgi flokksins en telur eðlilegt að flokkar setji upp plön þegar ekki er lengra í kosningar. „Það er eðlilegt að sett sé upp vinnuplan um það hvernig flokkurinn ætli að rísa úr öskustónni fyrir væntanlegar október kosningar.“
Oddný G. Harðardóttir var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og segir Grétar Þór hana hafa komist vel frá því hlutverki. Hann segir hana hafa átt auðvelt með að tala mál sem fólk virtist skilja um fjármál ríkisins. „Það sem hún hefur sýnt í ráðherraembætti er frekar jákvætt, held ég, og það er aldrei að vita nema hún muni koma flokknum eitthvað af stað með tíð og tíma.“