Geta ekki hætt við kosningar

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Ekki er gerlegt að hætta við þingkosningar í haust miðað við þær aðstæður sem eru uppi, að mati Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra. Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun sagði Sigurður Ingi að hann myndi styðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson til áframhaldandi formennsku flokksins.

Páll Magnússon, stjórnandi þáttarins, spurði Sigurð Inga hvort rætt hefði verið um á vorfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins í gær að rétt væri að Sigmundur Davíð stigi til hliðar í kjölfar Panamahneykslisins. Forsætisráðherra sagði ekkert launungarmál að ýmsar raddir hefðu verið uppi innan flokksins og þær hefðu allar heyrst á fundinum.

Sjálfur myndi hann hins vegar styðja Sigmund Davíð til áframhaldandi formennsku og ekki bjóða sig fram gegn honum ef hann færi fram aftur.

Spurður hvað honum hafi mislíkað helst við viðbrögð formannsins við uppljóstrunum um aflandsfélagseign hans í frægu viðtali sem birtist í Kastljósi sagði Sigurður Ingi að viðbrögðin hefðu getað verið öll önnur en þau voru. Sigmundur Davíð hefði getað upplýst flokkinn og þjóðina alla.

Sigmundur Davíð hefði haldið að hann gæti útskýrt fyrir fjölmiðlamönnum hvernig í pottinn hefði verið búið. Það hefði hins vegar ekki skipt neinu máli. Betra hefði verið ef Sigmundur Davíð hefði komið strax fram og skýrt málið, sagði Sigurður Ingi. 

Eðlilegast að halda flokksþing fyrir kosningar

Þá sagði hann engan framsóknarmann draga í efa mikilvægi þess að halda flokksþing sem kysi forystu flokksins fyrir alþingiskosningar í haust. Sigmundur Davíð hefði meðal annars nefnt í ræðu sinni í gær að það væri eðlilegasta fyrirkomulagið.

Páll spurði Sigurð Inga út í kosningarnar í haust í ljósi ýmissa radda innan flokksins um að rétt væri að hætta við þær og að ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið. Forsætisráðherra sagði að skiptar skoðanir hefðu verið um það í öllum flokkum.

Forystumenn stjórnarinnar hefðu hins vegar brugðist við aðstæðum sem voru uppi með því að segja að kosið yrði í haust að því gefnu að næðist að ganga frá tilteknum mikilvægum málum.

„Við það mun ég standa,“ sagði Sigurður Ingi, sem sagði aðspurður að ekki væri hægt að hætta við kosningarnar við þær aðstæður sem uppi væru. 

Auðvelt ætti að vera að afgreiða þau 70-80 mál á þingmálaskrá sem stjórnin lagði fram ef þingið virkaði skilvirkt, sem það hefði gert. Ekki væru mikil pólitísk átök um þau. Lýsti forsætisráðherra ánægju sinni með störf þingsins á liðnum vikum.

„Ég hef í sjálfur sér engar efasemdir um að það verði þannig líka þegar við komum saman í ágúst. Ef það gengur allt eftir er bara sjálfsagt að ganga til kosninga í kjölfarið á því að við séum búin að ljúka þeim verkefnum,“ sagði Sigurður Ingi.

Listinn yfir málin hafi ekki verið alveg tæmandi eins og stjórnin hafi boðað. Þar sé annars vegar frumvarp um afnám hafta á almenning og fyrirtæki sem Sigurður Ingi taldi alla hafa skilning á að þyrfti að klára og hins vegar lokahnykkur á húsnæðismálafrumvörpum stjórnarinnar þar sem tekið væri á séreignarstefnunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert