Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Þetta tilkynnti Ragnheiður á Facebook-síðu sinni fyrir skemmstu.
Ragnheiður var fyrst kjörin á þing árið 2007 og var í öðru sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.
Fleiri þingmenn hafa tilkynnt að þeir muni ekki gefa kost á sér í næstu kosningum. Þannig tilkynnti Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, nú í byrjun mánaðarins að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram, en áður höfðu þau Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Katrín Júlíusdóttir og Kristján Möller, þingmenn Samfylkingar, Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir, þingmenn Bjartrar framtíðar, Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, tilkynnt að þau myndu ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu.