Teymdi manninn í gegnum reykinn

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum. Myndin er úr safni.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/ Ernir Eyjólfsson

„Ég opna hurðina, hélt fyrir munninn og fór í gegnum reykinn. Hann stóð fyrir utan, sá sem býr í íbúðinni [þar sem eldurinn kom upp]. Ég teymi hann út,“ segir Gná Guðjónsdóttir, íbúi á Rauðarárstíg 38 í Reykjavík. Maðurinn er enn undir eftirliti á sjúkrahúsi.

Tvær íbúðir eru í kjallara hússins og býr Gná í annarri þeirra. Eldurinn kviknaði í íbúðinni á móti og aðstoðaði hún nágranna sinn í gegnum þykktan, svartan reykinn.

Sex íbúðir eru í húsinu og ræddi mbl.is einnig við íbúa sem býr á fyrstu hæð hússins. Hann varð ekki var við eldinn, heldur vaknaði hann við læti eftir að slökkvilið var komið á vettvang. Hann var teymdur út úr húsinu af sjúkraflutningamanni.

Búið er að reykræsta stigaganginn og hafa íbúar fengið að fara aftur í íbúðir sínar. Mikil lykt er í húsinu og sýnileg merki eftir reykinn.

Taumar niður alla veggi

Gná fór út í morgun og kom aftur í íbúð sína um klukkan tuttugu mínútur yfir sjö. Hún gekk inn um inngang sem snýr að Skarphéðinsgötu en hann er mikið notaður af íbúum kjallarans.

„Þá var ekkert að sjá. Svo er ég eitthvað að bauka í nokkrar mínútur inni og heyri þá einhver læti frammi á ganginum. Ég lít út um eldhúsgluggann [af því að það er hægt að ganga beint út á Skarphéðinsgötuna]. Ég sé þá að það streymir reykur út um hurðina. Ég reyni að opna dyrnar fram á ganginn og þá mætir mér reykský þannig að ég loka aftur, fer beint í símann og hringi í 1-1-2. Þá er klukkan bara 7:37 sem þýðir að það var bara örstuttur tími frá því að það sást ekki neitt,“ segir Gná í samtali við mbl.is.

Þegar Gná hafði gert Neyðarlínunni viðvart um eldinn opnaði hún aftur dyrnar fram á stigaganginn og sér þá nágranna sinn sem býr í hinni íbúðinni í kjallaranum. „Ég hélt fyrir munninn og fór í gegnum reykinn. Hann stóð fyrir utan, sá sem býr í íbúðinni. Ég opna hurðina, sé hann og teymi hann út,“  segir Gná.

Gná og nágranni hennar fara út á Skarphéðinsgötuna og upp á Rauðarárstíginn þar sem þau biðu eftir slökkviliði, sjúkraflutningamönnum og lögreglu. Hún segir viðbragðsaðila hafa verið fljóta á vettvang og hrósar þeim fyrir vel unnin störf. „Það var ótrúlega gaman að sjá hvað allt var vel unnið og skipulagt,“ segir hún.

Búið er að reykræsta stigaganginn og hefur Gná fengið að fara inn í íbúðina. Hún segir að það leyni sér ekki að kviknað hafi í, mikil lykt sé í húsinu og einnig sjáanleg merki eftir reykinn. „Það eru alveg svoleiðis taumarnir niður alla veggi á jarðhæðinni. Allt svart í loftunum og fyrir utan í stigaganginum,“ segir Gná. Lögregla er enn við störf á vettvangi.

Rétti honum grímu og teymdi hann út

Ólafur H. Ólafsson er íbúi á fyrstu hæð hússins. Hann vaknaði við læti í morgun en tengdi það ekki við eld, heldur taldi hann mögulegt að um árrisula ferðamenn væri að ræða.

„Svo fer ég að kíkja út og þá er bara hellingur af lögreglumönnum. Þegar ég opna út á stigaganginn þá er varla hægt að sjá út úr augunum. Ég sá ekki eld en það lagði svona rosalegan reyk og lokaði  ég strax,“ segir Ólafur.

Því næst lítur hann út um gluggann sem snýr að Norðurmýrinni og sér þar fólk sem kallar í hann. „Það var verið að taka fólk niður af svölunum með stigum og tröppum. Þá opnaði ég aftur og þá kom sjúkraflutningamaður, rétti mér grímu sem hann sagði mér að setja á mig og fór með mig út í gegnum reykinn,“ segir Ólafur.

Ólafur fékk nýja eldvarnarhurð á síðasta ári og segir hann að hún hafi staðið fyrir sínu. „ Það var þykkur reykur í stigaganginum. Þegar menn eru komnir með þessar eldvarnarhurðir eru þær svo mjög þéttar, það fer ekkert í gegnum þær,“ bætir hann við.

Frétt mbl.is: Íbúum bjargað af svölum

Rauðarárstígur 38 í Reykjavík.
Rauðarárstígur 38 í Reykjavík. Skjáskot/ja.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert