Framsóknarmaður dúxaði

Ármann Örn Friðiksson, dúx FAS, við útskriftina.
Ármann Örn Friðiksson, dúx FAS, við útskriftina. Ljósmynd/Úr einkasafni

Framsóknar- og sjómaðurinn Ármann Örn Friðriksson er dúx Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu. Námsaðstæður Ármanns voru líklega frábrugðnar flestra samstúdenta hans, en síðustu tvö skólaárin sótti Ármann sjóinn og á því síðasta var hann fastráðinn á humar- og netabátnum Þóri og hafði hann því frjálsa mætingu í skólanum. „Ef maður talar nógu fallega við kennarana þá fær maður svoleiðis.“ Spurður hvort hann hafi ekki þurft að mæta í skólann, segir hann það hjálpa en bætir við að það sé ekki nauðsynlegt.

Af sjónum í fjármálaverkfræði

„Ég verð á sjónum í sumar og svo hætti ég í ágúst,“ segir Ármann sem er búsettur á Höfn, en Þórir gerir nú út frá Þorlákshöfn. „Við vorum að koma til Þorlákshafnar. Humarinn fer vestur eftir þegar líður á sumarið.“ Ármann stefnir þó ekki á framtíð í sjómennsku, en hann heldur til Reykjavíkur í haust, þar sem hann mun hefja nám í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Ármann útskrifaðist af kjörnámsbraut í FAS, en þar velja nemendur sín áherslusvið sjálfir og valdi hann stærðfræði og hagfræði, sem hann segir sín uppáhaldsfög. Í vetur þurfti dúxinn að nýta frítímann á sjónum í lærdóm og segir það hafa gengið upp. „Það er alveg hægt á humrinum. Maður fær alveg einhvern tíma. Málið er bara að hafa gaman af þessu. Ég var bara í stærðfræði og hagfræði og einhverju svona sem ég hafði gaman af, þegar ég var úti á sjó. Þá var þetta bara eins og að gera hvað annað þegar maður hafði frítíma.“ Þegar blaðamaður spyr hvort að eitthvað fag hafi reynst honum erfiðara en önnur, svarar Ármann: „Ætli það hafi ekki verið danska. En ég fékk góða leiðsögn þannig að það heppnaðist.“

Framsóknarmaður sem stundar líkamsrækt

Auk sjómennskunnar er Ármann ritari Félags ungra framsóknarmanna í Austur-Skaftafellsýslu, en hann er fyrrum formaður félagsins, auk þess sem hann á sæti í stjórn á landsvísu og útilokar hann ekki framtíð í stjórnmálum. Þá leikur hann á píanó ásamt því að stunda mikla líkamsrækt, þegar hann er í landi.

Að lokum segist dúxinn hafa tekið því rólega á sjómannadeginum, enda þunnur eftir sjómannadagsfögnuð á laugardagskvöldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert