Samfélagsmiðlar geti aukið kvíða

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. mbl.is/Eggert

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gerði kvíða og þunglyndi barna og unglinga að umfjöllunarefni á borgarstjórnarfundi í dag. Benti hún á að í rannsóknum Rannsókna & greininga kæmi fram að kvíði væri að aukast hjá börnum, og þar af verulega hjá stúlkum. Færu tölurnar þar úr 8% upp í 17% frá árinu 2012 til 2016 hjá stúlkum sem skoruðu hátt á kvíðakvarða. Hjá drengjum færu þær úr 2% upp í 4% á sama tímabili.

„Þetta fer vaxandi og við þurfum að greina ástæður þess,“ sagði hún, en verið var að ræða til­lög­ur stýri­hóps um lýðheilsu og heilsu­efl­ingu barna og ung­linga í leik-, grunn- og frí­stund­a­starfi. Þá bætti Sóley við að jákvætt væri að 78% drengja og 63% stúlkna mætu heilsu sína góða eða mjög góða.  

Aukin notkun samfélagsmiðla áhrifaþáttur

Samkvæmt niðurstöðum Rannsókna & greininga væru ástæður þessa margar, en þó hefði sérstaklega verið bent á samspil nokkurra þátta, þ.e. aukinnar notkunar samfélagsmiðla, fjárhags foreldra og svefnvenja. „Líklega gætu verndarþættirnir sem við höfum komist að því að skila árangri varðandi vímuefnanotkun komið sér vel hér,“ sagði Sóley.

Þá benti hún á að vandinn í samfélaginu lægi einnig í því að steypa ætti alla í sama mót. Það væri hættuleg einföldun að ákveða á fæðingardeildinni að aðeins væru til tvö kyn og reyna að láta alla einstaklinga passa í það fyrirframákveðna form. Þá myndu staðlar um líkama og útlit bjaga sjálfsmynd unglinga sem væru að taka út líkamlegan þroska. Auk þess væri kynbundið ofbeldi stórt samfélagslegt vandamál.

Öflug kynja- og fordómafræðsla ætti að vera í leik- og grunnskólum

„Menningin og samfélagið gerir þetta ómeðvitað. Við sjáum það meðal annars í teiknimyndum, námsefni og bíómyndum,“ sagði Sóley og bætti við að eiginleikar sem þessir myndu ala af sér samfélag sem væri skakkt og bjagað og upphefja staðalmyndir af líkömum sem ekki væri hægt að standa undir.

Það gæti dregið verulega úr sjálfstrausti ungra stúlkna að fara svo á samfélagsmiðla og sjá glansmyndir úr lífi annarra, sem oft sýndu ekki raunveruleikann. Einsýnt væri að leggja þyrfti meira upp úr því að fyrirbyggja vanlíðan sem þetta gæti valdið. „Í leikskólum og grunnskólum þurfum við að vera með öfluga kynja- og fordómafræðslu til að losa börn undan þessu oki,“ sagði hún. „Við verðum að brjóta upp staðalmyndir sem gera þetta að verkum.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók undir með Sóleyju og sagði að horfast þyrfti í augu við þennan vanda. Hann benti þó einnig á að samkvæmt lýðheilsuvísum Landlæknis væri einelti langminnst á höfuðborgarsvæðinu, sem væri jákvætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert