Útideildinni í Kaldárseli var lokað í gær en þar hefur verið starfrækt deild frá leikskólanum Víðivöllum í Hafnarfirði í frá árinu 2012 á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Á sumrin reka KFUM og KFUK á Íslandi sumarbúðir og leikjanámskeið á staðnum.
Birna Dís Bjarnadóttir, leikskólakennari og deildarstjóri á deildinni í Kaldárseli, vakti í gær athygli á lokun deildarinnar í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún lýsir yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun bæjaryfirvalda og hefur færslan vakið gríðarleg viðbrögð.
„Við höfum heyrt að ástæðan sé sú að snjómokstur sé svolítið dýr og kostnaður vegna rútuferða í Kaldársel“ segir Birna í samtali við mbl.is.
Aðspurð um hvort samráð hafi verið haft við stjórnendur deildarinnar vegna lokunarinnar segir Birna ekki svo hafa verið fyrir utan það það þeim hafi verið tilkynnt um að henni skyldi lokað. „Við vorum náttúrulega bara alltaf virkilega að vonast til að þeir myndu hrökkva til baka,“ bætir hún við.
Birna segist hafa spurst fyrir kostnaðarmat við rekstur deildarinnar hjá formanni fræðsluráðs Hafnarfjarðar. Hún bendir á að veturinn hafi verið tiltölulega mildur og lítið um snjó.
Hún segist þó lítil viðbrögð hafa fengið og er upplifun hennar sú að lítið sé um svör frá bæjaryfirvöldum. Foreldrar hafi einnig sent frá sér undirskriftalista vegna málsins en hafi ekki heldur fengið viðbrögð. Þá nefnir Birna að í auknum mæli sé farið að horfa til útikennslu, leikskólar á Íslandi séu að vinna gríðar gott starf og í þeim efnum njóti Kaldársel ákveðinnar sérstöðu.
„Ég hef þá trú að börnin okkar beri meiri virðingu fyrir náttúrunni eftir dvöl sína í Kaldárseli, þau upplifa ósnortna náttúruna, finna frelsið sem fylgir því að hoppa á steinum yfir ána, finna innblásturinn sem náttúran veitir og finna til léttis þar sem ekkert stress er,“ segir Birna í færslu sinni.
Fjöldi gesta hefur heimsótt Kaldársel, íslenskir sem erlendir, og segir Birna að þeir séu margir hverjir einnig gáttaðir yfir því að deildinni hafi verið lokað. Einhverjir þeirra, ekki síður þeir erlendu, hafa reynt að leggja sitt af mörkum til að berjast fyrir áframhaldandi starfsemi deildarinnar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður fræðsluráðs, segir útideildina hafa verið setta á laggirnar sem úrræði vegna aðsteðjandi húsnæðisskorts í leikskólanum fyrir nokkrum árum.
Nú sé gjörbreytt staða í hafnfirskum leikskólum þar sem umtalsverð fækkun barna á leikskólaaldri blasir við í Hafnarfirði, nægt rými sé á leikskólum bæjarins og því ekki þörf fyrir þetta úrræði sem stendur og því ákveðið að loka því í bili.
„Ég tek alveg undir það að þarna hefur verið unnið ákaflega skemmtilegt þróunarstarf og það er ekkert útilokað að þetta verði tekið upp aftur síðar þegar aðstæður eru aðrar og þá jafnvel með þeim hætti að fleiri leikskólabörn í bænum myndu eiga þess kost að njóta þess," segir Rósa. Nú sé fyrst og fremst verið að líta til þess að húsnæði bæjarins nýtist sem best.
Samkvæmt upplýsingum frá bænum nemur kostnaður við rekstur deildarinnar um 44 milljónum króna á ársgrundvelli. Þar af er aukakostnaður sem fellur til samtals um 14 milljónir króna.
Um er að ræða kostnað vegna aksturs og snjómoksturs um níu milljónir samanlagt og húsaleigukostnað að upphæð 5 milljónum króna en það eru KFUM og KFUK sem eiga húsnæðið. Launakostnaður er um 29 milljónir króna sem að einhverju leyti mun falla til áfram vegna flutnings barna á aðra deild á leikskólanum.
Hafnarfjarðarbær fékk tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna í opinberri stjórnsýslu árið 2012 fyrir starfsemina í Kaldárseli. Þá hefur leikskólinn Víðivellir fengið viðurkenningu fræðsluráðs árið 2013 fyrir verkefnið í Kaldárseli og árið 2015 þegar skólinn fékk viðurkenningu fyrir fagmennsku og skólaþróun.
Þó hún geri sér grein fyrir að kostnaður við deildina geti verið nokkur telur Birna það skjóta talsvert skökku við að veita viðurkenningar fyrir gott starf en loka þegar starfið sé komið á svo gott ról líkt og raun ber vitni.
Lesa má færslu Birnu Dísar í heild sinni hér.
Frétt mbl.is: Komu 35 leikskólabörnum til byggða