Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi um frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra flugumferðastjóra gegn ISAVIA á fundi Alþingis sem hófst kl. 15 í dag. Fyrstu umræðu um frumvarpið er lokið og hefur málið verið sent til umhverfis- og samgöngunefndar.
Þingmenn gagnrýndu meðal annars þann skamma fyrirvara sem þeir fengu til að kynna sér málið fyrir fyrstu umræðu. Einn þingmanna sagði ríkisstjórnina vera að leysa þakleka með því að kasta handsprengju í þakið.
Frétt mbl.is: Almannahagsmunir í húfi
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði að þingmenn hefðu fengið frumvarpið sjö mínútum áður en fundurinn hófst og velti fyrir sér hvernig á því stæði. „Þetta er nú ekki neitt smámál, þarna er verið að setja lög á borgaraleg réttindi flugumferðarstjóra,“ sagði hún. „Sjö mínútur eru einfaldlega ekki nógu mikið fyrir níu blaðsíðna frumvarp.“
Ólöf svaraði Ástu Guðrúnu og sagðist gera sér fulla grein fyrir því að þingmönnum þætti tíminn skammur. Frumvarpið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun og eftir það fyrir stjórnarandstöðunni. Sagði Ólöf einnig að starfsmenn þingsins hefðu gert allt sem þeir gátu til að hraða skjalavinnslu. Hún bætti við að við þessar aðstæður, þegar verið sé að grípa til þessara aðgerða, vilji oft verða svo að undirbúningur sé knappur.
Ásta Guðrún svaraði Ólöfu og sagði að þessi vinnubrögð væru orðin óþolandi, að þingskjöl bærust „endalaust“ á síðustu mínútu og væri verið að þröngva málum í gegn. „Það er algjörlega óþolandi að vinna undir svona kringumstæðum,“ sagði hún og bætti við að þingmenn þyrftu að fá frumvörpin fyrr svo þeir gætu haft skoðun á þeim við fyrstu umræðu.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að sér fyndist of mikið um að ríkisstjórnin leysti kjaramál sem kæmust í hnút með því að setja lög á verkfallsaðgerðir. Hann velti fyrir sér hvernig Ólöf og ríkisstjórnin ætluðu að fá flugumferðarstjóra til að sinna yfirvinnu ef ekki tækist að semja fyrir ákveðinn tíma.
Þá velti hann einnig fyrir sér hvort væri verið að gera illt verra með lagasetningunni. Sagðist hann óttast að ríkisstjórnin væri að leysa þakleka með því að kasta handsprengju í þakið.
Ólöf svaraði Róberti og benti að deilan væri á milli Samtaka atvinnulífsins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra og því væri bein aðild ríkissins ekki fyrir hætti. Hún sagði að á stjórnvöldum hvíli sú skylda að tryggja að almannahagsmunir séu virtir.
Mat ríkisstjórnarinnar hefði verið að deilan sé farin að hafa slík áhrif að bregðast verði við. Þá sagðist Ólöf vera viss um að flugumferðarstjórar muni sinna skyldum sínum. Róbert svaraði og sagði að ríkisstjórnin hefði gert sig að aðila í deilunni með því að skerast í leikinn.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær önnur umræða fer fram en það verður í dag.
Uppfært kl. 16.51
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að slíð tíðni beitingu laga á kjaradeilur hefði aldrei sést á lýðveldistímanum eins og á þessu kjörtímabili.
„Ég held að ekki verði undan því vikist að gjalda varhuga við því að stjórnvöld fari ítrekað inn í kjaradeilur með þessum hætti. Auðvitað valda aðgerðir af þessu tagi truflun gagnvart þriðja aðila, til þess er leikurinn gerður að skapa þrýsting,“ sagði hún.
Svandís spurði Ólöfu því næst: Kynnti ráðherra sér stöðuna í kjaradeilunni með þeim hætti að hún ætti fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins annars vegar og hins vegar með fulltrúum frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra? Er ráðherranum ljóst hvað nákvæmlega ber í milli aðila? Og hafa báðir aðilar fengið fullan aðgang að því að rökstyðja sitt mál áður en ákvörðun var tekin um það að fara með lagasetningu á stöðuna í kjaradeilunni?
„Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hún vísar í framsögu og líka í greinargerð með málinu ítrekað í ótvíræða almannahagsmuni; en hér vegast á gríðarlega stór og mikilvæg meginsjónarmið, þ.e. verkfallsrétturinn annars vegar andspænis almannahagsmununum: Hvernig fór þetta hagsmunamat fram? Hvaða sjónarmið voru það sem riðu baggamuninn í huga hæstv. ráðherra og stjórnvalda í því að hér væri tilefni til þess að fara gegn verkfallsréttinum með lagasetningu,“ spurði Svandís.