Næsti fundur í kjaradeilu flugumferðarstjóra verður haldinn í fyrramálið að frumkvæði ríkissáttasemjara. „Ríkissáttasemjari hefur boðað fund klukkan 8.30 í fyrramálið,“ segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, en SA semja við flugumferðastjóra fyrir hönd Isavia.
Ragnar segir þó of snemmt að segja til um hvort lögin, sem innanríkisráðherra setti á kjaradeiluna í gær, séu líkleg til að hafa áhrif á viðræðurnar.
Fari málið til kjaradóms sé það alfarið úr höndum deiluaðila, sem er ekki jákvætt að hans mati. Það eigi líka við þó að sá rammi sem kjaradómi verði settur kveði á um að taka skuli mið af launaþróun samkvæmt samningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði
„Það verður áhersla af okkar hálfu að funda stíft og það er það verkefni sem lögin fela samningsaðilum, að gera sitt besta til að ná samningum fyrir 24. júní,“ segir Ragnar.