Kennarar treysti ekki sveitarfélögunum

Ólafur Loftsson, Formaður félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, Formaður félags grunnskólakennara. Sigurður Bogi Sævarsson

Formaður Félags grunnskólakennara telur vantraust grunnskólakennara í garð sveitarfélaganna helstu ástæðu þess að kjarasamningar stéttarinnar voru felldir.

Ekki hafi verið staðið nógu vel að útfærslu ákveðinna atriða í núgildandi samningi og því hafi kosningin farið á þennan veg. Niðurstaðan var afgerandi en 72,24% þeirra sem kusu höfnuðu samningnum.

Spurður um hvort niðurstaðan hafi komið á óvart segir Ólafur Loftsson, formaður félagsins, svo ekki vera. Eftir að samningurinn var kynntur var hann ræddur meðal kennara og þar hafi óánægjan skinið í gegn.

Erfiður vetur að baki

„Árið 2014 sömdum við um nokkur atriði er lutu að breytingum á vinnuumhverfi, gæslumálum, breyttri viðveru og öðru slíku. Á þeim tíma fóru sveitarfélögin mjög illa að ráði sínu hvað varðar framkvæmdina á kjarasamningnum og þetta er búinn að vera mjög erfiður vetur. Sum sveitarfélög hreinlega misnotuðu ákvæði um gæsluna,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Hann segir að í samningnum sem grunnskólakennarar höfnuðu sé kveðið á um launahækkanir en einhverjir hafi talið að þær væru ekki nógu miklar. „Síðast en ekki síst var það að mönnum fannst textinn varðandi vinnuumhverfið ekki nógu skýr. Þegar menn upplifa það ofan í þetta vantraust þá fór bara sem fór,“ segir Ólafur.

Segir boltann vera hjá sveitarfélögunum

Ólafur segir að í umræðum grunnskólakennara hafi meðal annars komið fram að þeir óttuðust að sveitarfélögin myndu finna glufu til að misnota það sem væri verið að semja um. „Það var mjög sterk upplifun hjá mörgum að það hefði gerst eftir síðasta samning.

„Að mínu viti eru menn svolítið að hafna því og það þarf þá að skýra texta, setja betri ramma utan um það og laga það. Ég held að skilaboðin séu þar,“ segir hann.

Nú tekur við að fara yfir samninginn á ný og hittast samninganefndirnar á morgun. „Við þurfum auðvitað, eðli málsins samkvæmt, að halda áfram að ræða saman. Nú er boltinn svolítið hjá sveitarfélögunum,“ segir Ólafur að lokum.  

Frétt mbl.is: Grunnskólakennarar felldu kjarasamning

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert