„Það liggur fyrir niðurstaða Hæstaréttar í málinu. Hún er afgerandi, sýnist mér. Ráðuneytið mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Hæstaréttar,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra í samtali við mbl.is um niðurstöðu Hæstaréttar sem staðfesti rétt í þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að ríkinu sé skylt að loka norðaustur-/suðvesturflugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli.
Frétt mbl.is: Hæstiréttur: Neyðarbrautinni lokað
Íslenska ríkið þarf að loka neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli innan 16 vikna.
Reykjavíkurborg hafði höfðað mál á hendur innanríkisráðuneytinu vegna ákvörðunar ráðherra um að neita að loka NA-SV-brautinni, en hún er betur þekkt sem neyðarbraut vallarins. Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, hafi verið heimilt að gera samkomulag við borgina árið 2013 og láta af hendi landsvæði sem væri í eigu ríkisins og brautin er á.
Þetta þýðir í raun að Valsmenn hf., sem hafa fengið framkvæmdaleyfi og hafið framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu, geta haldið áfram með framkvæmdir sínar án þess að eiga á hættu að uppbygging þar skarist á við aðflug að neyðarbrautinni.