Matvælastofnun andmælir þeirri ályktun sérfræðinga á vegum atvinnuvegaráðuneytisins að líklegt megi telja að endurtekin veikindi hrossa á bænum Kúldalsá í Hvalfirði megi rekja til flúormengunar frá álverinu á Grundartanga.
Þá er MAST einnig ósammála þeirri niðurstöðu skýrsluhöfunda að nær útilokað sé að rekja megi veikindi hrossanna á Kúludalsá til offóðrunar eða rangrar meðferðar.
Í yfirlýsingu sem MAST sendi frá sér í dag er vísað til þess að skýrsluhöfundar séu sammála MAST um að veikindi hrossa á Kúludalsá megi rekja til efnaskiptaröskunar sem lýst hefur verið á ensku undir heitunum „equine metabolic syndrome“ (EMS) eða „insulin resistence“ (IR).
„Við skoðun á hrossunum árið 2011 blasti við að helstu áhættuþættir sem tengdir hafa verið EMS/IR voru til staðar og að verulegur hluti hrossanna bar klínísk einkenni sjúkdómsins. Krufning á þremur hrossum, sem eigandinn taldi með mest einkenni, styrkti það álit. Engin merki komu fram við rannsókn um þekkt einkenni flúoreitrunar þrátt fyrir að flúorgildi í beinum mældust nokkuð há en þess ber að geta að hvorki þolmörk né normalgildi flúors eru þekkt í beinum hrossa,“ segir í yfirlýsingu MAST sem kveður nýlegar yfirlitsgreinar benda til þess að offita og þá einkum staðbundin fita í makka og ofan við taglrót sé mikilvægustu áhættuþættir EMS/IR ásamt takmarkaðri hreyfingu.
Sjúkdómurinn sé og hafi lengi verið vel þekktur í íslenska hestinum, bæði hér á landi og erlendis.
Efnaskiptaröskunin sem um ræðir sé varanlegt ástand og læknist því ekki við breytingar á fóðrun þó þannig sé hægt að halda sjúkdómseinkennum niðri að einhverju leyti. „Mikil hætta er á að aðgangur að auðleystum sykrum s.s. í grasi eða heyi kalli einkennin fram á ný þrátt fyrir að tekist hafi að grenna hrossið og hreyfing hafi verið aukin.“
Þetta skýri misvísandi ályktanir MAST og skýrsluhöfunda, en 2011 leiddi skoðun MAST í ljós að flest hrossanna voru of feit, en skýrsluhöfundar mátu sömu hross ekki mjög feit árið 2013. Því fari þó fjarri að hægt sé að útiloka offitu sem orsök veikinda hrossa á Kúludalsá eins og skýrsluhöfundar gera.
„Matvælastofnun andmælir því þeirri ályktun skýrsluhöfunda að nánast útilokað sé að rekja megi veikindi hrossanna á Kúludalsá til offóðrunar eða rangrar meðferðar og að orsök EMS/IR í hrossunum á Kúludalsá megi líklega rekja til flúormengunar.“