„Ég fékk þessa hugmynd af því að vinur minn var að tala um að það þyrfti að auka aðgengi grunnskólastúlkna að tíðarvörum.“ Þetta segir Sara Mansour, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, í samtali við mbl.is en hún er forsprakki átaks á Facebook undir nafninu Rauði skatturinn.
Rauði skatturinn skorar á konur að hætta að blæða í mótmælaskyni við að tíðavörur falli undir skattþrep munaðar- og lúxusvara.
„Ég skora á ykkur allar að láta af lúxusnum. Því tíðarvörur hafa rauðan skatt og blæðingar hljóta þar af leiðandi að vera ónáttúrulegar,“ segir í áskorun Rauða skattsins sem notast meðal annars við myllumerkið #mérblæðir.
„Hugmyndin er ekki ný en mig langaði einhvern veginn að útfæra þetta þannig að konur stæðu saman í því að „reyna“ að hætta að blæða þó svo að það sé náttúrulega ekki hægt,“ segir Sara.
Þannig sér hún fyrir sér að ef helmingur þjóðarinnar tæki þátt áskorun af þessu tagi sé það miklu sterkara heldur en ef ein kona mætir fyrir framan Alþingi með skilti. „Mig langaði að búa til eitthvað sem konur gætu auðveldlega deilt og sýnt fram á stuðning við, eitthvað sýnilegt sem væri ekki heldur flókið í framkvæmd,“ útskýrir Sara.
Hún segist að sjálfsögðu vilja sjá sem flesta taka þátt í baráttunni, konur sem karla.
„Eins sorglegt og það er þá þarf yfirleitt karlmenn til að segja hlutina til að það sé tekið mark á þeim,“ segir Sara og telur hún því mikilvægt að karlar og piltar taki einnig þátt í jafnréttisbaráttunni. Hún telur fólk almennt móttækilegt fyrir átökum af þessu tagi, túrvæðing hafi verið í loftinu að undanförnu en það vanti eitthvað til að virkja andann í fólki.
Sara segist ekki endilega búast við jákvæðum viðbrögðum, hvorki frá almenningi né stjórnvöldum. Hún segir að í besta falli þá væru tíðavörur gerðar ókeypis en til að gæta raunsæis ætti í það minnsta að láta tíðavörur falla undir aðrar nauðsynjavörur á skattþrepi
Aðspurð um hversu lengi hún hafi tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttunni segist hún hafa lesið grein um femínisma þegar hún var í 7. bekk og verið virkur femínisti síðan „þó að það sé ekki fyrr en nýlega sem það var virkilega samþykkt orð.“