Á sunnudaginn mun Snorri Már Snorrason hefja árlega hálfs mánaðar hjólaferð sína sem hann kallar skemmtiferðina. Ætlar hann að hjóla frá Blönduósi til Egilsstaða, um Sauðárkrók, Siglufjörð, Dalvík, Húsavík, Sléttu og Vopnafjörð. Það sem gerir þessa ferð hans merkilegri en ella er að Snorri hefur undanfarin 12 ár þjáðst af Parkinsons-sjúkdóminum.
Í samtali við mbl.is segir Snorri að hann finni hvað hjólreiðarnar geri mikið fyrir hann. Þannig sé hann oftast með verki og sé stirður, en eftir hjólaferð sem þessa dragi mikið úr þeim. „Það er lyf fyrir mig að hjóla,“ segir hann og bætir við að þetta sýni einnig öðru fólki með sjúkdóminn og aðstandendum þeirra að það sé hægt að reyna á sig þrátt fyrir að bera sjúkdóminn.
Leiðinni í ár hefur Snorri kaflaskipt upp í 15 kafla. Segir hann að suma daga muni hann hjóla allt að þrjá kafla en aðra daga einn kafla. Spurður um þann kafla sem hann sé spenntastur fyrir segir Snorri að hann geri ráð fyrir að leiðin milli Dalvíkur og Akureyrar verði skemmtileg, það sé mjög fallegt svæði.
Snorri segist ekki hræddur við talsverðar brekkur á leiðinni, meðal annars Þverárfjall og Víkurskarð. „Það er smá halli á leiðinni, en ekkert miðað við Vestfirðina árið 2014,“ segir hann. Þar hafi hann m.a. hjólað frá Ísafirði til Patreksfjarðar yfir fjórar heiðar sem voru yfir 400 metrum. „Samt er ég ekki að telja þær allar,“ segir Snorri brattur.
Snorri hjólar alla daga í og úr vinnunni og heldur sér þannig í góðu formi fyrir skemmtiferðir sumarsins. Þá fer hann í ræktina og vinnur fullan vinnudag. Er það einstakt miðað við hversu lengi hann hefur glímt við sjúkdóminn, en hann hefur náð að sporna við framgangi hans.
Hann segist vilja halda áfram að fara í ferðir sem þessar og að hann eigi mikið eftir inni, sé aðeins 52 ára gamall. Hann hefur undanfarin fimm ár farið um mest allt Ísland, en segist þó eiga Snæfellsnesið eftir. Segir hann að þegar hann sé orðinn sáttur með hjólaferðirnar hér á landi muni hann byrja að horfa út fyrir landsteinana. „ÉG fer ekki að slá af, nauðsynlegt líka fyrir heilbrigt líf,“ segir Snorri.