Fisvélin leiktæki allt árið

Árni Gunnarsson, Jónas Sturla Sverrisson og Jón B. Sveinsson eru …
Árni Gunnarsson, Jónas Sturla Sverrisson og Jón B. Sveinsson eru himinlifandi með nýju fisflugvélina. mbl.is/Árni Sæberg

Vélknúnum fisum hefur fjölgað ört hérlendis á skömmum tíma og nýlega tóku Árni Gunnarsson og félagar nýja vél í gagnið eftir að hafa varið um 700 klukkutímum í að setja hana saman.

Svifdrekafélag Reykjavíkur var stofnað 1978. Síðan fóru menn að fljúga svifdrekum með mótor og um aldamót hófst flug á svifvængjum (e. paragliders) hérlendis. Í kjölfarið komu vélknúin fis og 2002 var nafni félagsins breytt í Fisfélag Reykjavíkur.

Árni hefur sinnt þessu áhugamáli í 39 ár, eða frá 1977. „Bekkjarfélagi minn í Menntaskólanum í Reykjavík átti svifdreka, fékk sér nýjan og seldi mér þann gamla,“ segir hann. „Ég var í svifflugi, þekkti flug og þetta var nýtt tækifæri og spennandi.“ Hann smíðaði síðan véldreka eða mótorsvifdreka 2001 og er núna með fimmtu fisvélina, sem kostaði um sex milljónir króna.

Árni segir að þrír hópar í félaginu hafi ákveðið að panta jafnmargar ósamsettar vélar frá Ítalíu og pakkarnir hafi komið til landsins skömmu fyrir síðastliðin jól. „Þá hófumst við handa og við félagarnir, ég, Jónas Sturla Sverrisson og Jón B. Sveinsson, lukum við að setja vélina saman í apríl eftir að hafa dundað við verkið í 700 klukkutíma.“

Hámark 450 kg á lofti

Fisvél er tveggja manna far sem lítur út eins og flugvél. Samkvæmt reglum Flugmálastjórnar má vélin aldrei vera þyngri á lofti en 450 kg. „Þetta er bara leiktæki eins og vélsleði, jafnvel eins og lúxusbíll án leðursæta, því þau eru of þung, til notkunar allt árið,“ segir Árni og áréttar að vélin verði að geta flogið hægar en 65 km á klukkustund, en flugþolið er um sex til sjö tímar. „Við getum flogið um landið og miðin og flug frá Reykjavík til Akureyrar tekur til dæmis um einn og hálfan tíma.“

Gott samstarf er með Flugbjörgunarsveitinni og eigendum fisvéla, sem gjarnan eru kallaðir til aðstoðar þegar leita þarf að fólki vítt og breitt um landið. Ekki er langt síðan leitarmenn í fisvél fundu spor týndrar konu fyrir norðan, þyrla fylgdi síðan sporunum og fann konuna á fjallstoppi. „Vélarnar hafa komið sér vel og þátttaka okkar í starfi Landsbjargar er hluti af leitarstarfinu og við tökum þátt í því að mestu á eigin kostnað,“ segir Árni. „Það er mikil ánægja að geta hjálpað öðrum.“

Því fylgir mikið frelsi að fljúga um loftin blá og Árni segir það veita sérstaka fullnægingu. „Þetta endist aðeins lengur en kynlíf,“ útskýrir hann. „Það eru forréttindi að geta skoðað Ísland, séð staði sem ekki er hægt að fara á gangandi eða í bíl. Þótt ég hafi flogið í 40 ár hef ég ekki skoðað nærri allt landið og á því mikið eftir.“

Árni Gunnarsson flýgur um loftin blá og skoðar landið.
Árni Gunnarsson flýgur um loftin blá og skoðar landið. mbl.is/Árni Sæberg
Árni Gunnarsson flýgur fisinu um loftin blá.
Árni Gunnarsson flýgur fisinu um loftin blá. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert