„Það er alltaf gott veður í Gullsprettinum og allt gekk frábærlega,“ segir Gríma Guðmundsdóttir, skipuleggjandi Gullsprettarins. Gullspretturinn er utanvegahlaup sem haldið er á ári hverju á Laugarvatni. Hlaupinn er hringurinn í kringum vatnið og þurfa keppendur að vaða ár og vötn og hlaupa yfir mýri til að koma sér í mark.
Að hlaupi loknu er keppendum boðið upp á hverarúgbrauð með silungi af svæðinu. Þá geta þeir einnig farið og slappað af í Laugarvatn Fontana eða kíkt í sundlaugina á Laugarvatni.
Í ár tóku um 300 manns þátt í hlaupinu sem er talsverð fjölgun frá því að hlaupið var fyrst haldið árið 2005 en þá voru 46 sem hlupu. „Við viljum ekki að hlaupið verði neitt stærra því þetta er lítið svæði og við erum að hlaupa úti í náttúrunni,“ segir Gríma. Það voru því færri en vildu sem öðluðust þáttökurétt í í Gullsprettinum í ár.
Öll vinna í kringum hlaupið er unnin af sjálfboðaliðum og er ágóði þess gefinn til góðgerðamála. Í fyrra var ágóðinn gefinn til Björgunarsveitarinnar Ingunnar á Laugarvatni en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvert hann fer í ár.