Lág samfélagsstaða kvenna á Íslandi gæti verið grundvallarástæða þess að þær „rötuðu ekki á bálið“ í sama mæli og kynsystur þeirra í Evrópu á tímum nornabrenna. Þetta er ein helsta niðurstaða Önnu Gyðu Sigurgísladóttur sem skrifaði BA-ritgerð sína í lögfræði um stöðu kvenna á brennuöld Íslands.
„Mig langaði mjög mikið að skrifa um konur og sá að í réttarsögu gæti ég gert það á annan hátt en í nútímalögfræði. Ég hafði smá áhuga á nornum og var búin að vera að lesa mér svolítið til,“ segir Anna Gyða við mbl.is um ástæður þess að efnið varð fyrir valinu.
Leiðbeinandi Önnu benti henni á tvo fræðimenn, þau Ólínu Þorvarðardóttur og Matthías Viðar Sæmundsson, sem skrifað höfðu hvort sitt fræðiritið um galdra á Íslandi og brennuöld. Anna nýtti sér verk þeirra við ritgerðarskrifin en ákvað hins vegar að einbeita sér að konum. Þar mætti henni strax sú hindrun að lítið hefur verið skrifað um efnið frá því sjónarhorni auk þess sem eldri heimildir eru afar takmarkaðar.
„Það sem mér fannst áhugavert er að við fyrstu sýn lítur kannski út fyrir að jafnrétti kynjanna hafi verið meira á Íslandi en í Evrópu á 17. öld af því að það voru svo fáar konur sem voru teknar af lífi – í Evrópu voru það aðallega konur sem voru drepnar fyrir galdra,“ segir Anna.
„Svo komst ég að því að í rauninni hafi þvert á móti verið minna jafnrétti. Fólk var tekið af lífi af því að það fundust einhver galdragögn eða þá að það hafði einhvers konar kunnáttu, oft tengda lækningum.
Það þýðir að þetta var klárt fólk sem gat lesið og skrifað svo mögulega er ástæðan fyrir því að eins fáar konur voru teknar af lífi og raun ber vitni sú að þær höfðu ekki þessa kunnáttu. Heimildir vísa til þess að á þessum tíma hafi 78,3 prósent kvenna verið ólæsar og óskrifandi. Það sem bjargaði konum frá dauðanum í þessum tilfellum var því kannski lítið jafnrétti.“
Eins og Anna dregur fram í ritgerð sinni ber þeim Matthíasi og Ólínu ekki saman um upphaf brennualdar hér á landi. Matthías telur aftöku Jóns Rögnvaldssonar árið 1625, fyrstu opinberu galdrabrennuna, vera eiginlegt upphaf brennutíðar en Ólína telur aftöku Guðrúnar Þorsteinsdóttur 1608 vera upphafspunktinn. Guðrún hafði sér það til saka unnið að brenna tveggja ára gamalt barn til bana með því að steypa því ofan í sjóðandi grautarpott og hún í annálum kölluð „sönn refsinorn“ fyrir illskuna.
Alls komu 114 einstaklingar fyrir Alþingi vegna tengsla við galdramál en þar af voru aðeins 10 konur. Tuttugu og sjö einstaklingar fengu brennudóm en tveimur var aldrei fullnægt. Af þeim 25 galdrabrennum sem fram fóru hér á landi voru aðeins tveir hinna dæmdu konur en tvær aðrar konur voru brenndar utan brennualdar þar sem ekki þykir fulljóst að um galdradóm hafi verið að ræða.
Í ritgeðinni ber Anna sérstaklega saman málsmeðferð Þórarins Halldórssonar og Margrétar Þórðardóttur, sem síðar var kölluð Galdra-Manga í þjóðsögum. Þórarinn hlaut brennudóm á Alþingi fyrir „óvenjulegar lækningar“, árið 1967 aðeins ári eftir ákæru. Margrét var kærð árið 1656 fyrir galdra en ólíkt máli Þórarins þvældist hennar mál um á mörgum þingum sökum samstöðu sveitunga hennar sem stóðu með henni.
Í máli Þórarins studdust dómendur aðallega við greinar Biblíunnar þar sem galdur er sagður svívirðing fyrir drottni og að galdramenn ættu að deyja. Vísað er í konungsbréfið frá 1617 og 2. kafla Mannhelgi Jónsbókar en í máli Margrétar er vísað í 17. kafla sömu bókar sem kvað á um að velja bæri þá niðurstöðu sem væri sakborningi í hag komi upp vafi við málaferli. Skrifar Anna að Margréti hafi verið sýnd mun meiri miskun en Þórarni en í máli hennar hafi einnig verið sem stuðst við greinar Biblíunnar sem kváðu á um miskunn gagnvart sakborningi þótt algengara væri að vísað væri til Mósebókar þar sem segir „Ekki skaltu láta galdrakonu lifa.“
„Sömu sögu er að segja af Ingibjörgu Jónsdóttur, eða Galdra-Imbu eins og þjóðsögurnar kölluðu hana, en báðar urðu þær eins konar blórabögglar meintra galdraiðju feðra sinna eða eiginmanna. Þrátt fyrir að hafa erft orðróm galdursins var orðsporið svo illt að Galdra-Imba var t.d. talin „verkmeistari djöfulsins“,“ skrifar Anna í ritgerð sinni.
„Í tilviki Ingibjargar sýndu yfirvöld henni enn meiri linkind en Margréti, þar sem hún var ekki einu sinni ákærð og náði að fá mannorð sitt hreinsað á Alþingi með eiði.“
Þótt Margrét og Ingibjörg hafi báðar sloppið við bálköstinn virðist mannorð þeirra svo sannarlega ekki hafa verið hreinsað í augum almennings. Anga af nornahatri er að finna í þjóðsögum af Galdra-Imbu og Galdra-Möngu sem Anna segir mjög á skjön við raunveruleg dómsmál kvennanna.
Margréti er lýst sem illri galdranorn sem hafi verið brennd á báli eða drekkt en í raun sýni heimildir að hún hafi orðið langlíf og látist á efri árum. Eins og áður segir var Ingibjörg talin „verkmeistari djöfulsins“ og vitnar Anna í ritgerð sinni í sagnfræðinginn Báru Baldursdóttur sem líkir umræddum þjóðsögum við slúðurmiðla nútímans.
Í samtali sínu við mbl.is segist Anna hafa unnið í jafnréttismálum í nokkur ár og vera mikill jafnréttissinni. Hún hafi þó ekki áttað sig á því hversu samofnar rætur kvenfyrirlitningar samtímans væru kvenfyrirlitningu fyrri tíma – kirkjunni og stjórnvöldum.
„Það eru viðbjóðslegir hlutir sem skrifað er um í gömlum kirkjuritum, bara bull! En það merkilega er að þessar hugmyndir eru við lýði enn í dag. Þegar ég var að skrifa þetta sá ég t.d. tilvitnun í páfann í Time blaði um að kirkjan væri hætt að líta á fóstureyðingar í Suður-Ameríku sem „completely evil“ vegna Zika-veirunnar,“ segir Anna.
„Flestar konur sem voru drepnar í Evrópu voru einhvers konar ljósmæður eða konur sem voru að reyna að hjálpa öðrum konum að hafa stjórn á eigin líkama, fæðingum og fóstureyðingum. Það var talið versta synd í heimi; kona sem ætlaði að ráða yfir líkama sínum.“
Anna segir að litið hafi verið á þennan vilja kvenna til yfirráða á eigin líkömum sem ógn við karlmenn, kristna trú og samfélagsskipan í heild. Óttinn við galdrakonur hafi því hugsanlega m.a. stafað af vönunarótta karlmanna og öðrum áþekkum ótta við valdmissi sem enn leynist í trúarbrögðum og samfélögum víðs vegar um heim og notaður er til undirokunar kvenna. Hvað brennuöldina sjálfa varðar komi þó vissulega fleira til og ítrekar Anna þá afstöðu laganemans að á öllum málum séu margar hliðar.
„Ég var að vonast til þess að komast að annarri niðurstöðu,“ segir hún þegar samtalið fer að líða undir lok.
„Þar sem við stöndum fremst hvað varðar kynjajafnrétti í heiminum var ég að vona að það hefði byrjað þetta snemma. Svo komst ég að því að sú var ekki raunin. Það mikilvæga fyrir samtímann er kannski hvað það er áhugavert að fræðast um nornaveiðarnar og áróðurinn í kringum þær, hvernig þetta gat orðið svona viðbjóðslega stórt. Mér finnst sturlað að þetta hafi getað gerst og ég hefði viljað læra meira um þetta og þessar rætur kvenfyrirlitningar í skóla.“