„Maður er bara í sjokki“

Samtökin 78 standa fyrir minningar- og friðarstund í kvöld klukkan …
Samtökin 78 standa fyrir minningar- og friðarstund í kvöld klukkan 21:00 í Úteyjar-minningarlundinum í Vatnsmýrinni. mbl.is/Ómar

„Það er rosalega erfitt að vera með einhver viðbrögð núna, maður er bara í sjokki,“ segir Unnsteinn Jóhannsson, meðstjórnandi í Samtökunum '78. Fimm­tíu eru látn­ir og fimm­tíu og þrír særðir eft­ir skotárás á skemmtistaðinn Pulse í Orlando í Flórída í nótt. Pulse er skemmtistaður fyrir LGBT-fólk, það er samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk.

Samtökin '78 standa fyrir minningar- og friðarstund í kvöld klukkan 21.00 í Úteyjar-minningarlundinum í Vatnsmýrinni. „Þetta verður nú bara voðalega látlaust, engin dagskrá eða neitt slíkt. Við ætlum að koma saman í hálftíma, kveikja á kertum og hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda akkúrat núna,“ segir Unnsteinn.

Hann segir meðlimi samtakanna vera að melta fréttirnar frá Bandaríkjunum sem allir eru frekar slegnir yfir.

Þá hefur Q – Félag hinsegin stúdenta einnig sent frá sér tilkynningu þar sem það hvetur fólk til að sýna samstöðu og styrk. „Mikil vinna hefur verið lögð í hinseginbaráttuna en enn á eftir að færa fjöll,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert