Samtökin ‘78 votta aðstandendum þeirra sem létust í skotárásinni á skemmtistaðnum Pulse í Orlando dýpstu samúð sína, sem og hinseginsamfélaginu öllu. „Hinum særðu sendum við baráttu- og batakveðjur,“ segir í yfirlýsingu samtakanna vegna árásarinnar í Orlando.
„Pulse Orlando var griðastaður fjölbreyttrar flóru hinsegin fólks, sem sumu hverju hafði verið úthýst af fjölskyldum sínum. Þar fann fólk nýja fjölskyldu, vini, gleði og ást. Árásin er því árás á hjarta hinseginsamfélagsins,“ segir í yfirlýsingunni.
„Árásin er hatursglæpur sem beinist gegn hinsegin fólki um allan heim. Hinsegin fólk er með kerfisbundnum hætti beitt ofbeldi, jaðarsetningu og útskúfun víða um heim og þessi árás er af sama meiði. Hún er öfgafull birtingarmynd hinseginhaturs sem hinsegin fólk þekkir því miður of vel á eigin skinni.
Samtökin ´78 fordæma það að árásir sem þessi séu notaðar til að kynda undir útlendingahatur og fordóma gegn múslimum. Árásin snýst fyrst og síðast um hatur á hinsegin fólki, sem er viðvarandi vandamál um allan heim, þvert á trúarbrögð og menningarheima. Nú sem endranær reynir á samstöðu okkar hvert með öðru. Á samstöðu jaðarsettra hópa og á samstöðu þeirra sem ekki eru jaðarsett með okkur hinum. Samtökin ‘78 munu halda baráttu sinni áfram. Við sigrum árásir með sýnileika, fræðslu og ást, nú sem fyrr. Kærleikurinn mun sigra.“
Í dag er regnbogafána hinsegin fólks flaggað í hálfa stöng við Ráðhús Reykjavíkur.