„Það er í sjálfu sér hægt að skilgreina þetta sem hryðjuverk, en það er pólitísk skilgreining eigi að síður. Við höfum ekki enn neina vitneskju um það að hann hafi verið gerður út af samstarfsneti sem gerir slíka menn út af örkinni. Það lítur ekki út fyrir það á þessari stundu. En hann skapar auðvitað „terror“, hann skapar ótta,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við félagsvísindasvið Háskóla Íslands, um árásirnar í Orlando aðfaranótt sunnudags.
Líkt og greint hefur verið frá er skotárásin rannsökuð sem hryðjuverk, en að sögn Helga eru mörkin á milli þess hvað sé glæpur og hvað sé hryðjuverk óljós, og máli skipti hver það sé sem skilgreini. „Mörkin virðast óljós og svolítið pólitískt hvoru megin hryggjar þetta lendir.“
Að sögn Helga tengir fólk hryðjuverkahugtakið við ákveðna heimshluta, líkt og Mið-Austurlönd, og afganskur uppruni árásarmannsins í Orlando sé því líklegur áhrifavaldur skilgreiningar árásanna. „Við sjáum í fréttum sjálfsmorðsárásir og fleira sem er skilgreint sem hryðjuverk. Það er mjög fljótt verið að tengja brot einstaklinga frá þessum svæðum við hryðjuverk. En ef við skoðum þetta bara eitt og sér er þetta auðvitað dæmigerður hatursglæpur. Þessu er beint gegn ákveðnum hópi.“
Hann nefnir að þrátt fyrir tengingu við heim múslima hafi voðaverk annarra verið skilgreind sem hryðjuverk í Bandaríkjunum og nefnir í því samhengi hryðjuverkin í Oklahomaborg 1995, þar sem tveir hvítir Bandaríkjamenn, sprengdu upp alríkisbyggingu. „En þetta er ekki alveg hrein lína út af þessu í Oklahoma, þá var talað um hryðjuverk. En það var ekki hatursglæpur, enda í sjálfu sér ekki beint gegn ákveðnum hópi, eins og í Orlando. Það er það sem gerir þetta að hatursglæp, þessu er beint að samkynhneigðum. Þetta er skólabókardæmi um það. Þarna er einstaklingur sem er uppsigað við samkynhneigða og beinir glæpnum að þeim. Allir samkynhneigðir undir. Það gerir þetta að hatursglæp. Síðan er spurningin hvað gerir þetta að hryðjuverki og það er aðeins langsóttara. Eina tengingin sem maður getur tengt við þetta er að hann er af afgönskum uppruna.“
Aðspurður hvort árásin í Orlando hefði síður verið skilgreind sem hryðjuverk, væri árásármaðurinn ekki kominn af múslimum, segist Helgi ekki getað svarað því með vissu. „Maður veltir því fyrir sér en svo kemur upp þetta ´95 [hryðjuverkin í Oklahoma, innsk. blaðamanns].“ Hann segir hryðjuverk eiga sér pólitískar rætur og að þau séu notuð til að koma skilaboðum á framfæri og svara óréttlæti. Hatursglæpir séu hins vegar fyrst og fremst glæpir sem sé beint að ákveðnum samfélagshópum.
Valdið sem felst í því að skilgreina er mikilvægt að sögn Helga, sem segir að með því að stimpla alla árásarmenn með múslimskan bakgrunn sem hryðjuverkamenn, sé alið á fordómum og hatri í garð annarra sem tilheyra þeim hópi.
„Þetta pólitíska skilgreiningavald er mjög mikilvægt. Við getum alveg séð með tvíburaturnana, það hefði alveg verið hægt að skilgreina það sem glæp. Þetta var afbrot og 10–20 manns á bak við það, en þetta var auðvitað magnað upp og gert að pólitískum hryðjuverkum sem varð tengt heilu löndunum. Þetta var ekki bara glæpaverk einstaklinga heldur var þetta skilgreint með miklu víðtækari hætti, þ.e. það voru heilu þjóðríkin á bak við þetta,“ segir Helgi.
„Við höfum ekkert fyrir okkur með þennan einstakling, að hann hafi verið gerður út af einhverjum tilteknum hópum eða samtökum. Við höfum ekkert í höndunum með það eins og er,“ segir Helgi, og bætir við að með hryðjuverkastimplinum sé búið að magna árásina upp. „Það magnar þetta upp að þetta sé ekki bara hatursglæpur heldur hryðjuverk. Málefni allrar þjóðarinnar. Eitthvað sem allir geta orðið fyrir.“